Meirihluti þátttakenda, 71%, í rannsókn á afdrifum barna sem dvöldu á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu á árunum 2000-2007 var mjög sáttur eða frekar sáttur við þátttöku foreldra sinna í meðferðinni. Ungmennin eru flest á aldursbilinu 20-25 ára.
Ungmenni sem dvöldu í Götusmiðjunni voru sáttust við þátt foreldra sinna eða 80%. Á sömu skoðun voru 66% barna sem dvöldu á Stuðlum og 65% barna sem voru vistuð á öðrum meðferðarheimilum.
Stúlkur ósáttari við foreldrana en piltar
Stúlkur voru þó mun ósáttari við þátttöku foreldra sinna í meðferðinni en piltar. Tæplega fjórðungur stúlkna var mjög eða frekar ósáttar við þátttöku foreldranna en hið sama átti við um 13% pilta. Líkt og fram kom á mbl.is í gær sögðust heldur fleiri stúlkur en piltar sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi starfsmanna.
Þrátt fyrir þetta sögðu ungmennin að dvölin væri almennt jákvæð og að tengsl við starfsmenn hefðu almennt verið jákvæð, styðjandi og farsæl.
Rannsóknin var gerð af þeim Elísabetu Karlsdóttur félagsráðgjafa og Ásdísi A. Arnalds félagsfræðingi fyrir hönd Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd og Barnaverndarstofu. Markmiðið var að afla upplýsinga um viðhorf barnanna til slíkar vistunar og afdrif þeirra eftir að meðferð lauk.