Þúsund fögnuðu 35 ára afmæli SÁÁ

Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ á sviði Háskólabíós í dag.
Gunnar Smári Egilsson formaður SÁÁ á sviði Háskólabíós í dag. Ljósmynd/SÁÁ

Um 1.000 manns mættu í 35 ára afmælisveislu SÁÁ sem fram fór í Háskólabíói síðdegis í dag. Dagskráin var fjölbreytt og meðal þeirra sem komu fram voru Jón Gnarr, sem ávarpaði fundinn og sló á létta strengi, systkinin KK og Ellen Kristjáns, Valdimar, Jónas Sig og Kristjana Stefánsdóttir sungu við undirleik hljómsveitarinnar Buffs og fjölmargir heiðruðu samtökin með ávörpum.

Að auki sendi Ólafur Ragnar Grímsson forseti kveðjur og flutti ávarp sem sýnt var á bíógjaldi Háskólabíós. Gunnar Smári Egilsson, forstjóri SÁÁ, sló svo botninn í hátíðahöldin þegar hann hvatti alla til dáða og til að halda áfram að vinna saman að Betra lífi, en svo nefnist átakið sem SÁÁ hóf á fimmtudaginn. Tilgangur þess er að safna stuðningi við frumvarp um breytingar á lögum þannig að hluti þess áfengisgjalds sem áfengissjúklingar greiða verði notað til að hjálpa þeim til betra lífs. 

„Fólkið í landinu er fyrir löngu búið að átta sig á því hvað SÁÁ stendur fyrir. SÁÁ hefur snert hverja einustu fjölskyldu í landinu. Það byggist á traustum grunni sem frumkvöðlarnir mótuðu á tímum þegar engin úrræði voru til fyrir veika alkóhólista. Það tókst að byggja upp SÁÁ eins og það er í dag, það tókst að byggja hér upp faglega meðferð á þessum grunni, að við ættum sama rétt á heilbrigðisþjónustu og aðrir sjúklingar á þessu landi,“ sagði Gunnar Smári Egilsson í ávarpi sínu í dag. 

Hann benti á að þrátt fyrir góðan árangur á síðustu árum væri enn fólk sem þyrfti meiri stuðning. SÁÁ leiti til þjóðarinnar til að byggja upp  brú þeirra inn í samfélagið. „Og svo eru það börn alkóhólista. Hópur sem býr við mikið álag heima hjá sér og líður miklar kvalir. Við þurfum að viðurkenna þeirra vanda og knýja á stjórnvöld að þau fái þá hjálp sem þau eiga skilið. Þessi börn eiga það skilið að við hjálpum þeim,“ sagði Gunnar Smári einnig. 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt með lófataki á fundinum: 

„Baráttufundur SÁÁ - haldinn í Háskólabíói 6. október 2012 í tilefni af 35 ára afmæli samtakanna - skorar á íslensku þjóðina að skrifa undir frumvarp um betra líf fyrir þolendur áfengis- og vímuefnavandans. Fundurinn hvetur þjóðina til að taka undir þá réttlátu kröfu að hluti þess áfengisgjalds, sem áfengissjúklingar greiða, verði notaður til að hjálpa þeim til betra lífs.

Við teljum að það sé mannúðleg krafa að að verst settu sjúklingunum standi til boða úrræði við hæfi.

Baráttufundur SÁÁ lýsir yfir eindregnum stuðningi við rétt allra til Betra lífs og hvetur þjóðina til þátttöku í þessu átaki í þágu þolenda áfengis- og vímuefnavandans.“

Hátt í 4.000 manns hafa skráð sig á undirskriftarlista Betra lífs sem nálgast má hér.

KK var meðal þeirra sem tók lagið í afmælisveislu SÁÁ.
KK var meðal þeirra sem tók lagið í afmælisveislu SÁÁ. Ljósmynd/SÁÁ
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert