Inga Hrönn Stefánsdóttir greindist með brjóstakrabbamein árið 2010. Krabbameinið uppgötvaðist þegar hún fór í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu að eigin frumkvæði. Skömmu áður hafði hún verið hvött til þess að bíða eftir hefðbundinni skoðun. Ef hún hefði farið eftir þeirri ráðleggingu hefði það getað verið um seinan.
Hélt að ég myndi ekki hafa það af
„Ég var farin að finna til einhverra einkenna eins og þreytu og slens. Auk þess var ég sífellt með kvef og pestir. Á endanum fór ég til læknis í krabbameinsskoðun til að athuga þetta, þá var ég kominn með þrjú illkynja æxli í brjóstið. Við tók allur pakkinn, skurðaðgerð, lyfjameðferð og geislar. Það gekk ekkert allt of vel í fyrstu. Í raun fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis. Þegar ég var búin í aðgerðinni þjáðist ég af miklum innvortis blæðingum og þurfti að fara í aðra aðgerð morguninn eftir.
Um nóttina hélt ég að ég myndi ekki hafa það af. Svo þegar ég var búin að jafna mig af þessu fékk ég sýkingu og þurfti að fara á viku á spítala. Læknirinn sagði að ég væri í 2% hópi fólks sem lendir í slíku. Ég var alls staðar í einhverjum 2% hóp, hvort sem það var sýking, eða aðgerð, eða hvort það þurfti að taka allt brjóstið eða hluta þess. Svo fór lyfjagjöfin mjög illa í mig.“
Óþarfi að óttast geislameðferð
Hún segir að geislameðferðin hafi hins vegar verið auðveld í samanburði við það sem á undan var gengið. „Mér finnst að það megi alveg koma fram að geislameðferðin, sem sumir óttast, var ekkert mál. Hún var eins og að fara í ljós í þrjár vikur. Persónulega varð ég lítið þreytt og málaði húsið mitt að utan á meðan á geislameðferðinni stóð. Mín reynsla er sú að hana beri ekki að óttast.
Inga segir að erfiðasti hjallinn hafi verið frá október 2010 fram í mars árið 2011. Eftir það hafi hún fundið hvernig heilsan kom til baka og ónæmiskerfið styrktist dag frá degi.
Var hvött til að bíða með að koma í skoðun
Inga greindist í september árið 2010. Í aðdraganda greiningarinnar setti hún sig í samband við Krabbameinsfélagið en fékk þau skilaboð að réttast væri bíða eftir því að hún kæmi í hefðbundna skoðun í maí. „Eftir smá umhugsun hugsaði ég með mér að ég ætlaði ekki að láta einhverja skrifstofumanneskju segja mér hvenær ég ætti að mæta. Því pantaði ég mér tíma og sagði að ég hefði það sterklega á tilfinningunni að eitthvað væri að. Sem betur fer gerði ég það því verstu fréttirnar koma ef þú bíður og gerir ekki neitt. Það er hægt að gera svo margt ef þetta næst á byrjunarstigi.“ segir Inga.
Hún segist ekki óttast það að fá meinið aftur. „Ég ætla ekki að dæma mig í tvöfalda refsingu með því að hafa áhyggjur af því. Frekar myndi ég taka á því ef að því kæmi,“ segir Inga.
Engar stórar lífsstílsbreytingar
Hún segir að hún hafi ekki gert stórar lífsstílsbreytingar. „Auðvitað breytast hjá manni viðhorf og gildi þó ég hafði reynt að hafa sterk gildi í hávegum áður en ég veiktist. En þetta gerir mann að sjálfsögðu meðvitaðri um það sem skiptir máli. Bankahrun og annað slíkt skiptir engu máli þegar maður veit ekki hvort maður lifir eða deyr. Klisjan um að heilsan skipti öllu máli er þarna því hún er sönn,“ segir Inga.
Inga er sölufulltrúi hjá Nathan og Olsen og er hún fyrirtækinu þakklát fyrir að hafa hugrekki til að ráða manneskju sem er nýstigin upp úr veikindum. „Ég hætti að vinna, þar sem ég vann áður, um leið og krabbameinið uppgötvaðist. í kjölfarið lenti ég í hópuppsögn og því varð ég allt í einu atvinnulaus líka. Eftir það ákvað ég að safna þreki yfir sumarið og bíða þar til rétta vinnan óskaði eftir mér og það gekk eftir.“
Stefnir í skelfilegt ástand
Hún segir reynslu sína af heilbrigðiskerfinu mjög góða. „Það er ótrúlegt hvernig þetta heilbrigðisstarfsfólk vinnur úr þeim aðstæðum sem það býr við. Álagið er ákaflega mikið og það er hreinlega með ólíkindum að horfa upp á það að krabbameinslæknum fer fækkandi. Það er öfugsnúið að um leið og fleiri greinast með krabbamein, því færri læknar mennta sig til krabbameinslækninga. Eins fara margir þeirra til útlanda og í mínum huga stefnir í skelfilegt ástand,“ segir Inga að lokum.