Hagur bænda í hefðbundnu búgreinunum, nautgriparækt og sauðfjárrækt, batnaði heldur á árinu 2011 miðað við árið á undan. Það er aðallega vegna sérstakrar hækkunar á mjólk og kindakjöti. Afkoma bænda hafði versnað mjög frá hruni þar sem afurðaverð lækkaði að raungildi og rekstrarkostnaður stórhækkaði. Hækkanirnar á síðasta ári ná ekki að jafna stöðuna sem var fyrir fimm árum.
Landbúnaðarháskóli Íslands hefur birt niðurstöður búreikninga fyrir árið 2011. Niðurstöðurnar eru bornar saman við árið 2010. Við gerð skýrslunnar eru búreikningar sem taldir eru endurspegla stöðuna lagðir til grundvallar.
Tekjur sérhæfðra kúabúa hækka verulega á milli ára, eða úr 26 milljónum í 28,4 milljónir. Reiknaður hagnaður búanna fer úr því að vera tæpar 4 milljónir í 13 milljónir kr. Það segir þó ekki alla söguna því tæpur helmingur svokallaðs hagnaðar er vegna lækkunar lána.
Jóhanna Lind Elíasdóttir, rekstrarráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir villandi að bera aðeins saman þessi tvö ár. Hún bendir á að skuldir bænda hafi verið frystar í mörg ár á meðan unnið hafi verið að endurútreikningi. Hjá sumum bankanna hafi lánin verið lækkuð 2010 og öðrum 2011. Þessar breytingar hafi leitt til þess að fjármagnskostnaður búanna hafi orðið jákvæður, samkvæmt niðurstöðum búreikninganna. Það endurspegli ekki raunveruleikann og villi samanburð á milli ára.
Eigi að síður er ljóst að hækkun tekna leiðir til þess að hagur búanna hefur vænkast. Þær koma aðallega til af hækkun mjólkurverðs til bænda á síðasta ári.
Á búunum sem samantektin grundvallast á var 41 kýr að meðaltali á síðasta ári, sem er örlitlu minna en á árinu á undan. Innlagðir mjólkurlítrar voru að meðatali 205.872 á bú, örlitlu meira en á árinu á undan.
Ljóst er af því að búin hafa ekki verið að stækka jafn mikið og oft áður.
Tekjur sérhæfðra sauðfjárbúa hækkuðu úr 8.500 þúsund kr. á árinu 2010 í 9.341 þúsund kr. á árinu 2011. Er þetta tæplega 10% aukning tekna á milli ára. Hagnaður frá rekstri var 1.900 þúsund krónur, tvöfalt meiri en á árinu á undan.
Bændur hafa lítið fjárfest á undanförnum árum, allir fjármunirnir hafa farið í að greiða niður skuldir. Fjárfestingar jukust aðeins á árinu 2010, einkum í vélum, tækjum og greiðslumarki, en tölurnar þar á bak við eru enn lágar. Þannig er fjárfest á kúabúinu fyrir rúmar 3 milljónir kr. og 1 milljón á sauðfjárbúinu.