Vilja Íslendinga í vinnu í Noregi

Sveitarfélagið Sunndal í Mið-Noregi og fyrirtæki þar vantar gott starfsfólk frá Íslandi og er fjölmenn sendinefnd væntanleg hingað til lands um miðjan mánuðinn til að halda almennan kynningarfund í Hörpu. Þar geta áhugasamir fræðst um staðhætti í Sunndal og rætt við fulltrúa þeirra fjölmörgu fyrirtækja og stofnana sem vilja ráða til sín fólk, samkvæmt fréttatilkynningu frá sveitarfélaginu.

Nú þegar er þörf á að ráða 20-30 manns til starfa í Sunndal og jafnvel fleiri, bæði hjá sveitarfélaginu og fyrirtækjum. Þar vantar t.d. kennara, verkfræðinga, tannlækni, tæknifræðinga, framkvæmdastjóra, hjúkrunarfræðinga, vinnuvélastjórnendur, iðnaðarmenn og verkafólk, svo nokkuð sé nefnt en nánari upplýsingar, bæði á norsku og íslensku, um störf í boði í Sunndal er að finna á www.eures.is.

„Við leitum til Íslands því okkur sárvantar fleira fólk úr vissum mikilvægum starfsstéttum til starfa hjá okkur en fólk með þessa menntun er ekki á lausu í Noregi,“ segir Ståle Refstie, bæjarstjóri í Sunndal, í fréttatilkynningu.

Hann bætir við að góð reynsla sé af Íslendingum sem sest hafi að í sveitarfélaginu, t.d. hafi verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið HRV nýlega hafið þar starfsemi. Íslendingar falli vel inn í norskt samfélag enda margt líkt með þessum frændþjóðum.

Sveitarfélagið Sunndal er við samnefndan fjörð í Mið-Noregi, nokkru sunnan við Þrándheim. Íbúar í Sunndal eru um 7.300 talsins og er Sunndalsøra stærsti byggðakjarninn í sveitarfélaginu.

Á kynningarfundinum í Silfurbergi í Hörpu þann 16. október nk. fer fram kynning á sveitarfélaginu Sunndal og þjónustunni sem þar er í boði. Þar verða einnig fulltrúar frá öllum fyrirtækjunum í Sunndal sem eru að leita að starfsfólki og daginn eftir, 17. október, fara fram starfsviðtöl, segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert