Sóttvarnalæknir áætlar að á Íslandi hafi bólusetning með Pandemrix, bóluefninu gegn svínaflensu, komið í veg fyrir a.m.k. 20.000 sýkingar, 70 sjúkrahúsinnlagnir, 7 innlagnir á gjörgæsludeild og eitt dauðsfall. Þessar tölur samrýmast vel niðurstöðu sænsku sóttvarnastofnunarinnar.
Kom í veg fyrir 60 dauðsföll í Svíþjóð
Í nýlegu uppgjöri sænsku sóttvarnastofnunarinnar kemur fram að bólusetning með bóluefninu Pandemrix veturinn 2009/2010 hafi komið í veg fyrir 60 dauðsföll, 1400 sjúkrahúsinnlagnir og um 200 innlagnir á gjörgæsludeild. Rúmlega helmingur sænsku þjóðarinnar var bólusettur með Pandemrix á ofangreindu tímabili, að því er segir í frétt á vef landlæknis.