Að kasta af sér þvagi í miðborginni er brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar og liggur við því sekt. Íbúar og verslunareigendur í borginni eru orðnir langþreyttir á því að þurfa að sápuþvo innganga og skot eftir næturbrölt gesta, að sögn lögreglu.
Í nótt missti einn íbúi miðborgarinnar þolinmæðina þegar þrír menn stóðu og migu utan í kjallaraglugga á svefnherbergi hans. Maðurinn hljóp út með frumskógarsveðju í hendi að sögn lögreglu og rassskellti mennina með sveðjunni. Mönnunum brá mikið að sögn lögreglu, ekki síst vegna þess að hinn vopnaði maður hafði ekki gefið sér tíma til að klæðast þegar hann stökk fram úr rúminu og var hann því kviknakinn. Eftir að hafa hirt mennina með sveðjunni lét hann sig hverfa aftur til síns heima.
Sveðjumaðurinn var í kjölfarið handtekinn og gefur nú skýrslu þar sem honum gefst að sögn lögreglu kostur á að útskýra háttalag sitt. Honum var gefið færi á að klæða sig áður en hann var fluttur á lögreglustöðina.