Tæplega 16.000 einstaklingar hafa verið skráðir með árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot frá ársbyrjun 2009. Fjöldi einstaklinga á vanskilaskrá virðist vera að ná jafnvægi en í lok ágúst voru 26.525 einstaklingar á vanskilaskrá en að meðaltali voru 26.485 einstaklingar á vanskilaskrá það sem af er þessu ári, samkvæmt því sem fram kemur í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands.
Ekki er ljóst hversu stór hluti þessara einstaklinga, sem hafa verið skráðir með árangurslaust fjárnám eða gjaldþrot, er ennþá skráður á vanskilaskrá, en ef flestir einstaklingar fara af vanskilaskrá sökum þess að fyrningartími er liðinn má gera ráð fyrir að afskráningum af vanskilaskrá fari að fjölga á næstu misserum þegar 4 ár eru liðin frá falli fjármálakerfisins og tvö ár eru liðin frá því að fyrningartími skiptaloka var færður niður úr fjórum árum í tvö.
Gjaldþrotum einstaklinga fjölgar en færri árangurslaus fjárnám
Umskipti í tíðni árangurslausra fjárnáma eru greinanleg haustið 2011. Á fyrstu 8 mánuðum ársins 2011 voru 5.266 árangurslaus fjárnám skráð en fyrir sama tímabil í ár var fjöldinn 2.327 sem gerir um 50% fækkun.
Á móti kemur að gjaldþrotum fjölgar á sama tíma, en þau voru 132 í ár en voru 96 fyrstu 8 mánuði ársins 2011.
„Athygli vekur að skráð voru 147 gjaldþrot og árangurslaus fjárnám í ágúst 2012 og þarf að fara 3 ár aftur til að finna lægri tölu eða í ágúst 2009 en þá voru þau 142. Fækkun mála sem enda í innheimtu, með gjaldþroti eða árangurslausu fjárnámi, er í samræmi við lækkun vanskila hjá viðskiptabönkunum,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Vísbendingar um að greiðslubyrði skuldara sé að lagast
Hlutfall framteljenda sem skulda meira en þrefaldar árstekjur lækkar milli ára í fyrsta sinn frá árinu 1998. Á árinu 2010 skuldaði tæplega 31% framteljenda meira en þrefaldar árstekjur, en hlutfallið lækkaði í 29% á árinu 2011.
„Hér er um að ræða vísbendingu um að greiðslubyrði þeirra aðila sem mestar hafa skuldirnar í hlutfalli við tekjur sé að lagast. Ástæða þess að hlutfall framteljenda sem skulda meira en þrefaldar árstekjur lækkar milli áranna 2010 og 2011 er að framteljendum sem skulda umfram sexfaldar framtaldar tekjur sínar fækkar úr 10,9% í 9,4% og þeim sem skulda á bilinu 4-,5- til 6-faldar árstekjur fækkar úr 7% í 6,3%,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Hjá Umboðsmanni skuldara höfðu 4.218 einstaklingar sótt um greiðsluaðlögun í lok ágúst, en þar af voru 387 umsóknir í vinnslu innan embættisins, 1.710 umsóknir í vinnslu hjá umsjónarmönnum og 2.121 umsókn búið að loka, en þar af hefur 1.080 umsóknum verið lokað með frjálsum samningum. Einungis 9% umsókna eru því ennþá í vinnslu hjá Umboðsmanni skuldara en búið er að loka 51%.
Í júní 2011 var staða mála hins vegar sú að 68% umsókna voru ennþá í vinnslu hjá Umboðsmanni skuldara og aðeins búið að loka 6%. Árangur hefur því náðst í afgreiðslu mála hjá Umboðsmanni skuldara.
Meðalskuldir þeirra sem skulda mest eru um 80 milljónir króna
„Þegar umsóknir um greiðsluaðlögun eru greindar í fjóra flokka eftir fjárhæð krafna sem liggur að baki hverri umsókn vekur athygli að meðalskuld þeirra 25% einstaklinga/hjóna sem skulda mest er um 80 m.kr. og að um 56% af heildarkröfum tilheyra þessum hópi,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Ef skuldalægsti hópurinn er skoðaður, þ.e. 25% þeirra aðila sem skulda minnst, er meðalskuld um 7 m.kr. og kröfur á þessa aðila aðeins um 5% af heild. Munurinn á þeim 25% sem skulda mest og þeim 25% sem skulda minnst er því meira en ellefufaldur. Í heild er meðalskuld á einstakling/hjón sem sótt hafa um greiðsluaðlögun um 36 m.kr.
Ef litið er til þeirra umsókna sem hafa fengið samþykki fyrir greiðsluaðlögunarumleitunum, eða vinnsla komin það langt að hægt er að meta tekjur, framfærslu og skuldir, má sjá að nokkur munur er á stöðu umsækjenda eftir búsetuform.
Fasteignaeigendur eru með hærri tekjur og meiri skuldir
Þannig eru tekjur fasteignaeigenda nokkru hærri en annarra, en skuldir þeirra eru jafnframt að jafnaði töluvert hærri. Greiðslugeta þeirra sem eru í eigin húsnæði og hinna sem leigja er hins vegar svipuð þar sem framfærslukostnaður þeirra sem eru í eigin húsnæði er hærri en hjá þeim sem leigja.
Athygli vekur að þeir sem búa í leiguhúsnæði skulda að meðaltali 17 m.kr. og eru með neikvæða eignastöðu sem nemur um 13 milljónum króna, segir í Fjármálastöðugleika.