Vilja endurskoða EES-samninginn

Birgir Örn Guðjónsson er nýr formaður Samstöðu.
Birgir Örn Guðjónsson er nýr formaður Samstöðu. Mbl.is/Eva Björk

Samstaða telur að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins og hvetur til þess að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið verði endurskoðaður. Þetta er meðal þess sem var samþykkt á landsfundi flokksins sem var haldinn um helgina.
„Samstaða flokkur lýðræðis og velferðar leggur áherslu á  sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ákvarðanir um framsal á fullveldi þjóðarinnar skulu ávallt teknar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samstaða telur að hagsmunum Ísland sé best borgið utan ESB og hvetur til endurskoðunar EES-samningsins. Samstaða vill efla EFTA og fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir.

Samstaða leggur áherslu á samstarf við allar þjóðir og sérstaklega samvinnu við Norðurlöndin á sviði utanríkisþjónustu og þróunaraðstoðar og hvetur til samvinnu við þjóðir við Norður-Atlantshaf (Bandaríkin, Kanada, Grænland, Færeyjar, Noreg og Rússland) um öryggismál á hafsvæðinu, umhverfisvernd og nýtingu auðlinda á norðurheimskautssvæðinu.“

Samstaða telur afar brýnt að viðræðunum við Evrópusambandið ljúki á þessu ári til að þær skyggi ekki á brýn kosningamál í næstu alþingiskosningum. Þessi kosningamál eru, að mati Samstöðu: lausn á skuldastöðu heimila og smærri fyrirtækja og leið til að afnema gjaldeyrishöftin sem tryggir almenna velferð og efnahagslegt sjálfstæði landsins, samkvæmt ályktun sem samþykkt var á landsfundinum sem lauk á þriðja tímanum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert