Hleypur maraþon daglega

„Ég lenti í bílslysi fyrir fimm árum og mér var ekki hugað líf í fyrstu. Þegar ég byrjaði að jafna mig af alvarlegustu áverkunum leiddu allar líkur að því að ég yrði bundinn við hjólastól það sem eftir væri en ég var alltaf staðráðinn í að fara að hlaupa aftur,“ segir tékkneski hlauparinn René Kujan en hann hleypur núna hringinn í kringum Ísland og stefnir á að ljúka hlaupinu á 30 dögum. „Ég ákvað að byrja hlaupið 23. september eða á fimm ára afmælisdegi bílslyssins,“ segir René sem var í gær rétt að koma til Egilsstaði á rangsælis leið sinn um landið.

Til að ná markmiði sínu, að hlaupa hringinn í kringum landið á 30 dögum, þarf René að hlaupa heilt maraþon á dag og örlítið til viðbótar. Maraþonhlaup er 42 km og 195 metrar.

Íslenski veturinn heillar René

Fáir myndu ætla íslenska haustið og hvað þá veturinn hentugan til langhlaupa en víða getur verið komið vetrarveður á heiðum á þessum árstíma. „Hitastigið núna er mjög gott fyrir langhlaup og það er þægilegt að hlaupa langar vegalengdir í kringum fimm gráða hita,“ segir René sem þykir ekki verra að heimsækja Ísland á haustin eða að vetri til. „Mér hefur alltaf þótt norðurslóðir heillandi og þá Ísland og Grænland sérstaklega. Þegar ég kom til Íslands í fyrsta sinn varð ég strax ástfanginn af landinu.“

René hefur komið fimm sinnum áður til landsins og segir hann íslenska veturinn hafa heillað sig mest þó að sumarið sé fallegt hér á landi líka.

Ívar Jósafatsson hefur aðstoðað René Kujan og verið honum innan handar. „Það spurðist út meðal hlaupara á Íslandi að hann væri að koma til landsins til að hlaupa hringinn og ég sá fljótlega á netsíðunni hans að hann hafði enga tengiliði á Íslandi til að hjálpa sér. Ég tók það þá bara að mér,“ segir Ívar sem er í daglegu sambandi við René og konu hans en hún keyrir á eftir honum með húsvagn og þriggja mánaða gamalt barn þeirra. „René fékk töluverðan mótvind og rigningu á Suðurlandi en núna er útlit fyrir gott veður á leiðinni frá Egilsstöðum til Akureyrar,“ segir Ívar.

Hann skorar á hlaupara og skokkhópa að hlaupa með René sem víðast um landið. Hægt er að fylgjast með framvindunni á Facebook.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert