Huang bauð ríkinu að vera með

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun á Íslandi, segir að Huang Nubo hafi boðið ríkisvaldinu að taka þátt í fjárfestingum á Íslandi. Hann segir að samkvæmt plönum fyrirtækisins verði aðgangur almennings að jörðinni tryggður.

Halldór hélt erindi í Háskóla Íslands sem hann nefndi „Tilraun kínversks einkafyrirtækis til að fjárfesta á Íslandi“ en fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð viðskiptafræðideildar og Konfúsíusarstofnunar.

Halldór sagði að umhverfisráðuneytið hefði í nokkur ár reynt að fá landeigendur á Grímsstöðum á Fjöllum til að samþykkja að gera Grímsstaði að hluta af Vatnsjökulsþjóðgarði. Hann sagði að Huang styddi eindregið þessi áform. Gengi þetta eftir yrði til stærsti þjóðgarður í Evrópu.

Vill leigja 300 hektara

Halldór sagði að Grímsstaðir væru 30.639 hektarar að stærð. 75% landsins væri í eigu einstaklinga og ríkið ætti um 25%. Að auki væru um 25% jarðarinnar þjóðlenda. Huang hefði því sýnt því áhuga að kaupa 22 þúsund hektara.

Eftir að innanríkisráðherra hafnaði að heimila undanþágu frá kaupum á landinu hófust viðræður um að sveitarfélögin keyptu landið og leigðu það til félags í eigu Huang. Halldór sagði að þau drög að leigusamningi sem lægju fyrir gerðu ráð fyrir að félagið leigði 300 hektara undir byggingar eða um 1% jarðarinnar. Hinn hlutinn yrði fólkvangur.

Halldór var á fundinum talsvert spurður út í afnotarétt Huang að hinum hluta landsins. Halldór sagði að samningurinn gengi út á að Huang gæti nýtt heitt og kalt vatn fyrir þá starfsemi sem yrði á jörðinni. Hann tók fram að þetta þýddi ekki að hann gæti farið út í starfsemi eins og flytja vatn frá Íslandi í stórum stíl.

Halldór sagði að samningsdrögin tryggðu að sveitarfélögin og „misvitrir stjórnmálamenn“ gætu ekki farið út í aðra starfsemi á jörðinni sem gæti ógnað því sem Huang væri að sækjast eftir á Grímsstöðum. Hann nefndi í því sambandi t.d. vinnslu á surtarbrandi eða byggingu annars hótels.

Halldór sagði að það væru í sjálfu sér ekki margar náttúruperlur á Grímsstöðum, en í nágrenni jarðarinnar væru perlur eins og Mývatn og Vatnajökulsþjóðgarður sem löðuðu til sín fjölda ferðamanna á hverju ári.

Milljón ferðamenn koma til Lapplands

Halldór sagðist vera sannfærður um að það væru miklir möguleikar í ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðamenn væru að sækjast eftir því að komast á norðurslóðir. Hann benti á að á ári hverju kæmi ein milljón ferðamanna til Lapplands.

Áform Huang ganga út á að byggja 100 herbergja 4-5 stjörnu hótel á Grímsstöðum. Einnig er hann með áform um að byggja ígildi 100 herbergja í húsum á jörðinni. Þessi hús verða um 25.

Halldór sagði að gert væri ráð fyrir að um 400 manns störfuðu við hótelið. Þar myndu starfa Íslendingar og þar yrðu greidd laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Halldór sagði að Huang hefði hins vegar nefnt að það gæti verið áhugavert að þar störfuðu kínverskir kokkar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert