Töluverður árangur hefur náðst í því verkefni að ná umferðarhraða niður í kringum Melaskóla í Reykjavík. Foreldrar skólabarna höfðu margir hverjir kvartað yfir hraðakstri, sérstaklega þegar krakkarnir voru á leið til skóla. Lögreglan ákvað því að taka málið föstum tökum.
Lögreglan var með hraðamælingar á Neshaga, við Melaskóla, í febrúar á þessu ári og kom í ljós að af 134 ökutækjum sem óku um götuna á einni klukkustund var 51 þeirra ekið of hratt, eða 38%. Meðalhraði hinna brotlegu var 43,5 km/klst, en hámarkshraði er 30 km/klst.
Áður hafði lögregla mælt á sama stað fimm sinnum og var niðurstaða þeirra brotahlutfall upp á 27-38%.
Ábendingar voru sendar til framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar og í kjölfarið setti borgin upp hraðhindrun á svæðinu, eða svonefnda kodda. Í kjölfarið réðst lögregla í hraðamælingu í ágúst síðastliðnum. Þá var 119 ökutækjum ekið um götuna á einni klukkustund en fimmtán þeirra var ekið of hratt , eða 13%.
„Þessa umtalsverðu fækkun brota teljum við að rekja megi til þessara nýju hraðahindrana; svonefndra kodda. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er mjög ánægð með hversu vel tókst til með að geta komið til móts við þarfir íbúa og með slíkri samvinnu hafi verið mögulegt að bæta umferðaröryggi á svæðinu,“ segir lögregla höfuðborgarsvæðisins á samskiptavefnum Facebook.