Söngkonan Lady Gaga lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan kortér yfir sjö í kvöld. Hún er hingað komin til að taka á móti viðurkenningu úr LENNONONO-friðarsjóðnum / LENNONONO GRANT FOR PEACE úr hendi Yoko Ono ásamt fimm alþjóðlegum friðarsinnum.
Viðurkenningin er veitt annað hvert ár í Reykjavík og er þetta í fjórða sinn sem athöfnin fer fram hér á landi. Afhendingin fer fram í Hörpu og hefst kl. 14.00 á morgun.
Yoko Ono segir Lady Gaga einn mikilvægasta listamann samtíðarinnar. „Hún er ekki aðeins listamaður heldur einnig baráttukona sem notar list sína sem miðil til að efla samskipti og koma boðskap sínum á framfæri við heiminn. Hún fær viðurkenningu fyrir baráttu sína og hvernig platan hennar „Born This Way“ hefur lagt sitt af mörkum til að breyta þankagangi í heiminum og hvernig við tökumst á við framtíðina sem þegar er hafin.“