„Vissulega eru víti til að varast í þessum efnum eins og öðrum en menn verða að hafa þrek til að vega og meta stöðuna fordómalaust,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni og bætir því við að það eigi ekki við um Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. „Hann telur sig hafa hlutverki að gegna við varðstöðu vegna þeirra sem stunda lögbrot í þágu einhvers pólitísks málstaðar.“
Björn segir að stuðningur Ögmundarvið lögregluna í baráttu hennar við stöðugt bíræfnari og skipulagðari glæpahópa sé „næsta innantómur af því að hann vildi ekki tryggja lögregluyfirvöldum nægilega víðtækar rannsóknarheimildir. Þegar ég beitti mér fyrir setningu laga um slíkar heimildir mætti það andstöðu Ögmundar og einnig þingmanna Samfylkingarinnar.“
Þá rifjar hann upp þá gagnrýni sem komið hafi á lögregluna í Noregi vegna hryðjuverkaárásanna í Osló og nágrenni sumarið 2011 en hún hafi ekki síst beinst að því að lögreglan hafi ekki gripið til nauðsynlegra fyrirbyggandi öryggisráðstafana sem vakið hafi verið máls á fyrir árásina en aldrei verið framkvæmdar.
„Skipti pólitískir fordómar meira máli en kaldar staðreyndir taka menn ekki mark á ábendingum um það sem gera þarf ef það brýtur í bága við fordómana. Þetta sannast á tali Ögmundar Jónassonar um að hann þurfi ekki að huga að staðreyndum eða reynslu annarra þjóða þegar hugað er að öryggi borgaranna og lögreglunnar,“ segir Björn.