„Innan skamms verður íslenska þjóðin spurð hvort hún vilji að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga,“ segir Einar S. Hálfdánarson, hrl. og endurskoðandi, í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir Einar að þá verði þjóðin m.a. sérstaklega að því spurð hvort hún vilji að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign og hvort ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga skuli óbreytt frá því sem nú er.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Einar: „Við sem erum andstæðingar innlimunar Íslands í Evrópusambandið munum væntanlega flest greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild. En þeir sem vilja að kristin arfleifð okkar verði það áfram ættu ekki síður að hugsa sinn gang. Ég hvet því alla kristna söfnuði í landinu til að beita sér gegn tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.“