Þingmenn deildu hart á Alþingi í dag um það til hvaða nefndar ætti að vísa frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um verndar- og orkunýtingaráætlun eftir að fyrstu umræðu um málið lauk.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að frumvarpinu yrði vísað til atvinnuveganefndar þingsins en Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði til að frumvarpinu yrði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar, sem þegar hefur fengið stjórnarfrumvarp um rammaáætlun til meðferðar.
Eftir langar umræður, þar sem Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, reyndi m.a. að höggva á hnútinn með því að segja að velkomið væri að vísa málinu til utanríkismálanefndar, var tillaga Marðar samþykkt með 28 atkvæðum gegn 17 en einn greiddi ekki atkvæði. Því mun umhverfis- og samgöngunefnd fjalla um frumvarpið.