Segir flokksfélaga í jójó-leik

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ef menn ætla að fara að stunda það að draga til baka og sækja um aftur eftir því hvernig vindar blása  geta menn verið í svoleiðis jójó-leik endalaust,“segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, um það sjónarmið margra flokksbræðra sinna að leggja beri aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til hliðar í ljósi breyttra aðstæðna.

Hinn 13. ágúst sl. lýsti Árni Þór því yfir á fundi utanríkismálanefndar að eðlilegt væri að allir flokkar endurmætu afstöðuna til ESB-umsóknarinnar, í ljósi umróts í Evrópu. Nokkrum dögum síðar var málið á dagskrá á flokksráðsþingi VG á Hólum í Hjaltadal en síðan hefur lítið farið fyrir umræðu um málið innan VG. Árni Þór boðar frekari umræðu um málið.

„Ég tel einfaldlega að þetta sé mál sem við eigum að fjalla um núna á næstunni, á þessu hausti. Hver staðan nákvæmlega er og hver líkleg þróun er, það er það sem við töluðum um á okkar flokksráðsfundi og það er það í raun sem ég er að tala fyrir að við gerum.“

Ekki hægt að tímasetja lok viðræðna

- Hvenær telurðu raunhæft að við getum séð aðildarsamning við ESB?

„Ég tel að það sé ekki hægt að setja neina tímasetningu í því máli ákveðið. En ég tel að það séð útséð um að það verði samningur á þessu kjörtímabili. Þegar málið var samþykkt 2009 var rætt við mig af mörgum fjölmiðlum, ekki síst erlendum, og þá sýnist mér að ég hafi sagt almennt að ég teldi ekki líklegt að þetta mál yrði komið til afgreiðslu fyrr en 2013.

Það var mitt mat þá. Frekar hefur nú ferlið tafist heldur en hitt. Þannig að ég tel að það sé dálítið í það að þetta klárist. Sérstaklega erum við með þessa þungu kafla eftir eins og sjávarútveginn, sem er auðvitað ógerningur að gera sér grein fyrir hvað gæti tekið langan tíma.“

Leysi makríldeiluna fyrst

- Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í þingræðu í gær að makríldeilan væri að tefja opnun sjávarútvegskaflans. Það stefndi ekki í að samningur lægi ekki fyrir fyrr en í fyrsta lagi á fyrri hluta árs 2014?

„Það kann vel að vera. Ég tel sjálfur að það gæti verið skynsamlegt að reyna að leiða það deiluefni til lykta áður en menn vinda sér í sjávarútvegskaflann. En auðvitað geta verið skiptar skoðanir um það.“

- Hvernig heldurðu að grasrótin hjá VG og stuðningsmenn flokksins úti um allt land muni taka því að þetta mál sé að fara inn á næsta kjörtímabil? Hefurðu áhyggjur af því að hver viðbrögðin kunna að verða?

„Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því vegna þess að það eru auðvitað skiptar skoðanir um það hvernig eigi að standa að þessu máli í framhaldinu, bæði í okkar flokki og víðar í fleiri flokkum. Það sem mér finnst vera mest áberandi er það viðhorf að það sé eðlilegt og skynsamlegast að ljúka viðræðunum og bera samningsniðurstöðu undir þjóðina. Það er það viðhorf sem ég heyri mest í kringum mig.“

Um ákveðnar sérlausnir að ræða

- Telur þú raunhæft að hægt sé að fá aðildarsamning nú þegar? Tekur þú undir það sjónarmið  Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, flokkssystur þinnar, að nú þegar sé ljóst hvað felist í aðild?

„Já, ég tel að þau séu ekki byggð á staðreyndum. Ég held að menn hljóti nú að vita það. Þegar menn segja að það liggi allt fyrir nú þegar eru þeir væntanlega að vísa til þess að menn viti nokkurn veginn hvernig Evrópusambandið er í dag.

En viðræðurnar ganga auðvitað út á það að ræða um ákveðnar sérlausnir miðað við þá hagsmuni sem við höfum lýst, bæði í vinnu utanríkismálanefndar á sínum tíma og síðan í samningsafstöðu í einstökum köflum og það liggur auðvitað ekki fyrir niðurstaða í því.“

Geta verið í endalausum jójó-leik

- Hvað um það sjónarmið margra flokksbræðra þinna að ólgan í Evrópu og þær breytingar sem séu hugsanlega að verða í Evrópusambandinu þýði að það beri að draga umsóknina til baka og sækja um þegar ljóst er hvernig sambandið hefur breyst?

„Það er náttúrlega þannig að Evrópusambandið er háð sífelldum breytingum. Ef menn ætla að fara að stunda það að draga til baka og sækja um aftur eftir því hvernig vindar blása  geta menn verið í svoleiðis jójó-leik endalaust. Við vitum ekkert hvernig staðan verður.

Gefum okkur það að samningsniðurstaða lægi fyrir snemma árs 2014. Vitum við eitthvað hvernig staðan í efnahagsmálum Evrópu verður þá? Nei, við vitum það ekki. Það verður bara að hafa sinn gang og þjóðin tekur afstöðu út frá þeirri samningsniðurstöðu sem fyrir liggur og þeim aðstæðum sem þá eru upp í Evrópu og hér heima. Mér finnst það eðlilegt að hafa þann gang í málinu,“ segir Árni Þór Sigurðsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert