Segist ekki hafa átt að hagnast á Al Thani

Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson takast í hendur þegar …
Ólafur Ólafsson og Hreiðar Már Sigurðsson takast í hendur þegar þeir komu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Morgunblaðið/Kristinn

Ólafur Ólafsson, sem ákærður er í Al Thani-málinu, segir í greinargerð til héraðsdóm að hann hafi ekki verið þátttakandi í kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi haustið 2008 og að aldrei hafi staðið til að hann myndi hagnast af málinu eins og saksóknari heldur fram í ákæru.

Ólafur var í gegnum félög í hans eigu stór hluthafi í Kaupþingi. Hann sat hins vegar aldrei í stjórn bankans eða dótturfyrirtækja hans og þáði aldrei laun hjá honum. Verjandi Ólafs leggur áherslu á í greinargerðinni að Ólafur hafi aldrei haft neinar heimildir til að skuldbinda bankann með nokkrum hætti.

Ólafur er ákærður fyrir hlutdeild í ætluðum brotum Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, en hann er einnig ákærður fyrir markaðsmisnotkun.

„Með hreinum endemum“

Í greinargerð verjanda Ólafs er rannsókn embættis sérstaks saksóknara harðlega gagnrýnd og þá sérstaklega greinargerð rannsakenda, en hún er upp á um 120 blaðsíður. Verjendur sakborninga mótmæltu því að greinargerðin yrði lögð fram, en dómari tók þau mótmæli ekki til greina. Verjandi Ólafs telur að með greinargerðinni hafi gróflega verið brotinn réttur á Ólafi sem sakborningi.

„Þessi framsetning ákæruvaldsins er að mati ákærða með hreinum endemum. Í fyrsta lagi er nú ljóst að ekki verður séð hvernig það getur talist til bóta í sakamálum að fjölmargar grundvallarreglur sakamálalaga séu þverbrotnar og traðkað á mannréttindum sakbornings. Í öðru lagi er ljóst að tilraun ákæruvaldsins til að réttlæta greinargerðina með tilvist einhvers konar Kínamúra innan embættis sérstaks saksóknara er heldur hjákátleg,“ segir í greinargerðinni.

Ekki hlutverk lántaka að passa upp á lánveitingar

Ólafur er ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa lagt á ráðin með Hreiðari Má og Sigurði um að lán til Al Thani yrði greitt úr sjóðum bankans þrátt fyrir verulega tjónshættu fyrir bankann og láta félag sitt, Gerland Assets Ltd., taka við lánsfjárhæðinni án nokkurra ábyrgða eða trygginga til þess að ráðstafa henni áfram til félagsins Q Iceland Finance efh.

Verjandi Ólafs bendir á að það geti ekki verið hlutverk lántaka að passa upp á að ekki sé tekin óhæfileg áhætta í lánveitingum eða að tryggingar séu fyrir hendi. Ólafur hafi ekki haft aðgang að útlánareglum bankans, en þær séu ekki opinberar. Ritunarreglur bankans hafi hins vegar verið opinberar og þar komi fram að Hreiðar Már og Sigurður hafi haft ótakmarkaða heimild til að skuldbinda bankann.

Engir peningar fóru úr sjóðum bankans

Ólafur vísar því líka á bug að lánið hafi verið „greitt úr sjóðum bankans“ eins og segir í ákæru. Kaupþing hafi aldrei látið neina fjármuni af hendi í þessum viðskipum. „Skuldin sem þannig var stofnað til í bankanum var þess vegna ekki vegna þess að bankinn væri að lána út peninga, heldur lánaði hann söluverð eigna sem hann sjálfur var að selja. Á þessu er auðvitað reginmunur. Ef bankinn hefði t.d. leyst til sín fasteign við nauðungarsölu og selt hana síðan aftur gegn greiðslufresti mundi væntanlega enginn telja að ákvörðun um slíkt þyrfti að fara eftir sömu reglum og útlán peninga frá bankanum. Hér er um sams konar aðstöðu að ræða,“ segir í greinargerð Ólafs.

Hagnaður hefði endað hjá Al Thani en ekki Ólafi

Kaupin á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi kostuðu tæplega 26 milljarða króna, en þau voru fjármögnuð með láni frá Kaupþingi. Lánin voru veitt í gegnum tvö félög, Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar og Serval, sem var í eigu Al Thani.  Í ákæru saksóknara er því haldið fram að þeir tveir hafi átt að hagnast á lánveitingunni ef hagnaður yrði af viðskiptunum.

Ólafur neitar því alfarið að hann hafi átt að hagnast á þessum viðskiptum. Allur arður af fjárfestingunni hafi hlotið að enda hjá Q Finance, sem var i eigu Al Thani. Ólafur bendir á að Al Thani hafi í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara staðfest að hann hafi sjálfur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi og að Ólafur hafi ekki verið þátttakandi í fjárfestingunni.

Lét athuga hvort viðskiptin væru flöggunarskyld

Saksóknari segir í ákæru að mikil leynd hafi verið yfir aðkomu Ólafs að þessum viðskiptum og blekkingum og sýndarmennsku hafi verið beitt til að komast hjá flöggun á aðild Ólafs.

Ólafur hafnar þessu. Í greinargerð hans segir að Kaupthing Luxembourg hafi beðið virta lögmannsstofu að kanna hvort viðskiptin væru flöggunarskyld. Niðurstaða hennar hafi verið að svo væri ekki. Tekið er fram að Ólafur hafi á þessum tíma ekki vitað af þessari greinargerð lögmannsstofunnar. Verjandi Ólafs tekur undir þetta mat og bendir m.a. á að samkvæmt reglum um flöggun þurfi að flagga ef breyting verði á atkvæðisrétti, en það eigi ekki við í þessu tilviki.

Milljarðar hefðu tapast ef Al Thani hefði ekki keypt

Í lok greinargerðar verjanda Ólafs er bent á að ef hlutabréfin sem Kaupþing átti í sjálfum sér hefðu ekki verið seld hefðu þau orðið verðlaus við fall bankans í október 2008. Þau hefðu hins vegar verið seld og við það hefði bankinn eignast kröfu á hendur tveimur félögum, um 12,5 milljarða á hendur hvoru. Al Thani hafi borið persónulega ábyrgð á skuldbindingum annars þeirra. Slitastjórn Kaupþings hafi hafið málsókn á hendur Al Thani til að ná þessum peningum undir bú bankans. Hann hafi reyndar þegar greitt stóran hluta fjárins, en slitastjórn hafi véfengt það uppgjör. „Þess vegna hafa komið peningar inn í bankann vegna þessara hlutabréfaviðskipta, og sennilega munu meiri peningar koma í bankann vegna þeirra,“ segir í lok greinargerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert