Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að hann teldi tímabært að Íslendingar færu heildstætt yfir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þróun hans að undanförnu en nýleg dæmi væru um að farið væri að togna verulega á íslensku stjórnarskránni þar sem ýmis ákvæði EES-samningsins rækjust á hana.
Þá vísaði Árni Þór einnig til nýlegs dóms EFTA-dómstólsins þar sem niðurstaðan var að setja íslensku þýðinguna á regluverki Evrópusambandsins til hliðar og láta enska þýðingu gilda.
Árni Þór sagðist vera sammála Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, um að engin leið væri önnur en að gera breytingar á stjórnarskránni til að EES-samningurinn stæðist en ganga úr EES-samstarfinu ella.