Ólíðandi er að ríkisstjórn krefjist þess af æðstu embættismönnum og forstöðumönnum ríkisstofnanna að þeir starfi ekki samkvæmt gildandi lögum. Þetta segir miðstjórn Alþýðusambands Íslands, en á fundi hennar í dag kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð stjórnarflokkanna.
Tilefnið er ummæli sem Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, lét falla á Alþingi í gær og ASÍ segir afhjúpa ámælisverð vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Álfheiður sagði að þegjandi samkomulag ríkti um að ríkisfyrirtæki héldu að sér höndum í virkjanamálum, á meðan rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd á Alþingi.
Þetta segir miðstjórn ASÍ ólíðandi. „Það að í gildi sé eitthvert leynisamkomulag milli stjórnarflokkanna sem hér um ræðir þýðir í raun verkstopp og að meiriháttar fjárfestingar sem stjórnvöld hafa rætt um að væru í farvatninu hafi í reynd verið settar á ís fyrir alllöngu,“ segir í yfirlýsingu sem send var út eftir fund miðstjórnar í dag.
Slíkt sé ábyrgðaleysi í ljósi þess mikla atvinnuleysis og tekjusamdráttar sem hér hefur orðið.