Alþingi vill efla og auðvelda póstverslun

Mörður Árnason
Mörður Árnason mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Í dag var samþykkt einróma á alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun, sem nú fer fyrst og fremst fram gegnum netið.

Skipaður verður starfshópur til að fara yfir tiltekin álitamál í tengslum við þetta og skilar hann niðurstöðum eftir tæpt ár. Með þessu starfi yrði póstverslun sköpuð eðlileg samkeppnisstaða til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki, en hér hafa um hríð verið ýmsar hindranir í vegi verslunar á netinu, bæði milli landa og innanlands.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Mörður Árnason en með honum tíu þingmenn úr samtals fjórum þingflokkum.

Á mörgum sviðum ber laga- og regluverk kringum póstverslun svip liðinna tíma, segir í greinargerð með tillögunni, meðal annars í gjalda- og skattamálum, sem hefur hindrað eðlilega framþróun. Flókin og seinleg stjórnsýsla veldur hér einnig miklu, eins og þeir kannast vel við sem hafa þurft að sækja vörur eða aðrar sendingar á tollskrifstofur.

Meðal verkefna starfshópsins sem nú verður skipaður er að öðlast yfirsýn um sögu póstverslunar á Íslandi síðustu áratugi með samanburði við stöðu og þróun í grannlöndum, að meta líklega þróunarhneigð í póstverslun á næstunni og gera grein fyrir áhrifum aukinnar póstverslunar á stöðu neytenda annars vegar og stöðu íslenskra kaupmanna og þjónustufyrirtækja hins vegar.

Í tillögunni eru rakin níu álitaefni sem fara þurfi yfir með lagabreytingar eða aðrar ráðstafanir í huga. Þar má nefna að leyfa eigi erlendum fyrirtækjum að skrá sig á íslenska virðisaukaskattsskrá og í íslenska tollkerfinu, innheimta aðflutningsgjöld og skila þeim til ríkisins, hvort rétt sé að fella niður aðflutningsgjöld þegar upphæðir eru svo litlar að það borgar sig ekki að innheimta þau, og hvernig unnt sé að einfalda tímafrekt og kostnaðarsamt ferli sem neytendur þurfa að fara í gegnum við að senda vöru sem var keypt í pósti frá útlöndum (eða neytandi keypti sjálfur í útlöndum) aftur til útlanda vegna skila eða viðgerðar.

Flutningsmenn tillögunnar voru auk Marðar Árnasonar þau Helgi Hjörvar, Eygló Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Lúðvík Geirsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert