Björgólfur Thor vill rannsókn á einkavæðingu bankanna

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn

„Hvað hafa menn að fela?“ spyr Björgólfur Thor Björgólfsson á vefsíðu sinni þar sem hann segist vonast til þess að rannsókn á einkavæðingu bankanna verði gerð sem fyrst. „Hvað eru pólitíkusar hræddir við?“

Björgólfur Thor skrifar að enginn af þeim 147 sem komu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis hafi gengist við ábyrgð sinni á hruninu. Skýrsla nefndarinnar hafi verið mikilvægt innlegg í uppgjörið, en hún hafi ekki verið gallalaus. „Þar hefur Alþingi því miður ekki viljað hafa það sem sannara reynist. Vonandi tekst þinginu betur til þegar það ræðst í löngu tímabæra rannsókn á einkavæðingu bankanna.“

Björgólfur segist aldrei hafa fengið tækifæri til að skýra eitt einasta atriði í viðskiptum sínum. „Mig grunaði aldrei að ýmiss konar upphrópanir og ásakanir manna, sem höfðu augljósan hag af því að gera minn hlut sem verstan, yrðu birtar án þess að ég fengi að svara fyrir mig á sama vettvangi. Það voru mér mikil vonbrigði að Alþingi sjálft skyldi ekki vilja veita mér liðsinni sitt til að leiðrétta augljósa vankanta skýrslunnar.“

„Ég hafði ekki tjáð mig mikið um gang mála á meðan vinna nefndarinnar stóð yfir en eftir að skýrslan kom út gekkst ég við augljósum mistökum mínum og baðst afsökunar á þeim,“ skrifar Björgólfur.

„Ég furða mig enn á að enginn þeirra 147 sem komu fyrir nefndina sá ástæðu til að gangast við ábyrgð sinni. Þrátt fyrir þá gagnrýni, sem ég hef sett fram á einstök efnisatriði í skýrslunni að því er mig varðar, þá er ljóst að skýrslan er að mörgu leyti mjög upplýsandi og að meginefni rétt.“

Hann segist vonast til þess að tillaga um rannsókn á einkavæðingunni fái hljómgrunn á þingi og spyr: „Hvers vegna hefjast stjórnvöld ekki handa við rannsóknina?“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert