Ekki sáttur við allt í skýrslunni

Alfreð Þorsteinsson
Alfreð Þorsteinsson

Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent frá sér yfirlýsingu um skýrslu nefndar sem vann úttekt á starfsemi Orkuveitunnar. Hann er ekki sáttur við allt í skýrslunni og furðar sig á hvernig nefndin gerir upp fjármagnskostnað fyrirtækisins.

Alfreð hefur átt við veikindi að stríða og gat af þeim sökum ekki þegið boð um að koma til viðtals við nefndina, en hún ræddi við 28 einstaklinga sem komu að störfum fyrir félagið.

Yfirlýsing Alfreðs

„Það ber að fagna því að komin er út skýrsla úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur. Þar sem nefndin í tilkynningum sínum gerir lítinn greinarmun á einstökum tímabilum í sögu Orkuveitunnar þykir mér rétt að taka fram eftirfarandi:  

Ég var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur frá stofnun 1999 fram að miðju ári 2006. Á þeim tíma fór fram mikil uppbygging á fyrirtækinu en þess var alltaf gætt að fjárhagur fyrirtækisins væri í góðu lagi og afborganir væru vel innan greiðslugetu þess á hverjum tíma. Þannig voru heildarskuldir OR þegar ég lét af formennsku innan við 60 milljarðar og afborganir hvers árs um hálf EBIDTA fyrirtækisins. Þá voru í minni tíð einungis tekin lán vegna framkvæmda við virkjanir sem að mestu voru hugsaðar til framleiðslu sem greitt yrði fyrir í gjaldeyri. Einu lán Orkuveitunnar á þessum tíma sem ekki tengdust virkjunum voru vegna yfirtöku lána í tengslum við fráveitu borgarinnar sem hefur tekjur í íslenskum krónum. Þá ber að geta þess að þau ár sem ég var stjórnarformaður var arðsemi virkjana mun betri en gert hafði verið ráð fyrir, þar sem álverð var hærra en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og vextir miklu mun lægri. Þetta skilaði sér m.a. í mun lægra raforkuverði til íbúa en ella hefði orðið.  

Úttektarnefndin um stöðu Orkuveitunnar gerir nokkuð úr því að „eigendastefna“ hafi ekki legið fyrir hjá fyrirtækinu og því hafi vantað aðhald. Það ber að hafa í huga að hugtakið eigendastefna var varla til í íslensku máli á þessum tíma. Því fer hins vegar víðs fjarri að eigendur hafi ekki verið upplýstir eða fyllilega stýrt stefnu fyrirtækisins er náttúrlega víðs fjarri. Í stjórn Orkuveitunnar sátu á hverjum tíma fulltrúar í borgarráði frá bæði meiri- og minnihluta og bæjarráðsmenn frá öðrum eigendum, þannig að öll samskipti voru mjög greið. Þá var borgarráði og bæjarfulltrúum eigenda iðulega gerð grein fyrir einstökum málum og stafsáætlanir og fjárhagsáætlanir kynntar eigendum. Á hverju ári var einnig samþykkt í stjórn sérstakt stefnuskjal fyrir allar einingar Orkuveitunnar þar sem stefna ársins á eftir var lögð. Nýyrði og tískuorð á borð við „eigendastefnu“ eru einungis til að villa um fyrir almenningi.  

Það vekur nokkra furðu mína að sjá hvernig nefndin gerir upp fjármagnskostnað Orkuveitu Reykjavíkur yfir tímabilið. Öll áhrif gengisfalls eftir hrun eru tekin að fullu inn í fjármagnskostnaðinn en engu sinnt að um er að ræða langtíma fjárfestingar og lán sem í fyrsta lagi geta gengið til baka ef gengið styrkist. Í öðru lagi eru lánin tilkomin vegna tilkomu eigna, virkjana, sem verða þess verðmeiri í íslenskum krónum ef gengið styrkist ekki og hafa fjárstreymi í erlendri mynt sem hefði þá átt að dragast frá kostnaðinum. Í þriðja lagi er undarlegt að horfa til jafn stutts tíma og nefndin gerir því vitað er að jafn fjárfrekar framkvæmdir og virkjanir hafa minnsta arðsemi fyrstu árin. Á því tímabili sem nefndin skoðar eru raunar sumar virkjanir byggðar en byrja ekki að skila tekjum fyrr en eftir tímabilið.  

Það virðist einnig vera mikið gert úr því að stjórnarmenn hafi ekki haft fulla vitneskju um lán og lánasamsetningu á hverjum tíma. Þetta er alrangt. Á nánast hverjum stjórnarfundi var gerð grein fyrir stöðu lána, samsetningum þeirra og afborgunarprófílum.  

Þá tel ég nefndina gera allt of lítið úr þeirri staðreynd sem augljóslega er ein meginástæða slæmrar fjárhagsstöðustöðu og erfiðleikum Orkuveitu Reykjavíkur, en það er afneitun stjórnmálamanna fyrir þörf á hækkun gjaldskráa þegar hrunið verður og virði krónunnar hrynur. Þannig er engin hækkun á gjaldskrám frá 2007 þar til eftir kosningar 2010. Allir hljóta að sjá hvaða vanda það skapar.   Þá eru kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut í Hitaveitu Suðurnesja augljóslega ein af meginástæðum erfiðar fjárhagsstöðu, sérstaklega lausafjárskorts fyrirtækisins. Ég tel að nefndin geri of lítið úr þessum þætti í niðurstöðum sínum.  

Að lokum hefði mátt skoða meira hvernig styrkir frá fyrirtækinu þrefaldast eftir að ég lét af formennsku.   Það er sorglegt hversu mikið af staðhæfulausu slúðri er í skýrslunni þar sem starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur eru með gróusögum sakaðir um vanrækslu og jafnvel lögbrot. Nefndinni hefði verið í lófa lagið að sannreyna tilhæfuleysi þessara staðhæfinga með einfaldri fyrirspurn til starfsmanna fyrirtækisins. Gróusögur eru mikill ljóður á skýrslunni.  

Nokkurrar ónákvæmni gætir í meðferð heimilda. Við fljótalestur eru heimildir til að mynda eignaðar röngum aðilum. Með sæmilegum yfirlestri væri slíkt auðlagað þótt útgáfan hefði eitthvað dregist.   Þrátt fyrir þau skakkaföll sem Orkuveita Reykjavíkur hefur orðið fyrir síðustu ár er staða fyrirtækisins ekki verri en svo að það gæti greitt skuldir sínar að fullu á næstu 15 til 20 árum. Þetta er þrátt fyrir að gjaldskrár fyrirtækisins hafa enn ekki náð á föstu verðlagi því sem var fyrir hrun. Engar skuldir hafa verið afskrifaðar sem sýnir á hve traustum grunni Orkuveita Reykjavíkur er byggð.   Það er ýmislegt annað í skýrslunni sem er athugavert að mínum dómi en það verður að bíða betri tíma að fjalla um þau atriði.  

Ég sakna þess mikið í skýrslunni hversu lítið er gert úr jákvæðum hliðum Orkuveitu Reykjavíkur og góðu starfsfólki fyrirtæksins.   

Ég tel að þrátt fyrir þessa ágalla á skýrslunni sé mikill fengur að henni og margt megi af henni læra. Ég fagna því útkomu hennar,“ segir í yfirlýsingu frá Alfreð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert