Fá 950 milljónir í rannsóknarstyrk

Kveikjan að verkefninu var meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið …
Kveikjan að verkefninu var meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. mbl.is/Júlíus

Í dag var tilkynnt um eittt stærsta rannsóknaverkefni sem íslenskur vísindamaður hefur stjórnað. Heildarstyrkur til verkefnisins nemur um 950 milljónum króna og um þriðjungur þess fjár kemur í hlut íslenskra stofnana og fyrirtækja.

Verkefnið ber heitið „Ofurstöð í eldfjallafræði“ og miðar að því að samþætta vöktun og rannsóknir á eldfjöllum. Kveikjan að verkefninu var meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 en það olli töluverðri truflun á flugsamgöngum í Evrópu og víðar.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Norræna eldfjallasetrið á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, er stjórnandi rannsóknarinnar, en hún er  samvinnuverkefni evrópskra háskóla, stofnana og fyrirtækja sem miðar að því að samþætta vöktun og rannsóknir á eldfjöllum.

Markmiðið er að þróa nýjar leiðir til að meta eldgos og fyrirboða þeirra. Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofa Íslands eru leiðandi í verkefninu. Aðrir íslenskir aðilar að verkefninu eru  almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og upplýsingatæknifyrirtækin Miracle og Samsýn sem starfa á sviði kortagerðar, landupplýsinga- og stjórnkerfa. Reiknað er með að samanlagt komi vel á annað hundrað evrópskir vísindamenn að verkefninu á þeim þremur og hálfu ári sem reiknað er með að það standi.

Verkefnið hefur fengið vilyrði fyrir tæplega sex milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu, jafnvirði um 950 milljóna króna, en verið er að skrifa undir samninga við aðila verkefnisins þessa dagana. Styrkurinn er einn sá hæsti sem íslenskur vísindamaður hefur fengið til að stjórna Evrópuverkefni og munu íslenskir þátttakendur verkefnisins fá um þriðjung fjárins.

Verkefnið ber heitið „Ofurstöð í eldfjallafræði - FutureVolc“ (e. A European volcanological supersite in Iceland: a monitoring system and network for the future). Að því koma 26 aðilar í samtals níu löndum, þar á meðal evrópskir háskólar í fremstu röð, ýmsar stofnanir og fyrirtæki. Þátttakendurnir hafa yfirgripsmikla þekkingu á ýmsum þáttum sem snúa að eldgosum, s.s. jarðskjálftafræði, gasstreymi í eldgosum, veðurfræði, mælingum á jarðskorpuhreyfingum og eldfjallavöktun. Í verkefninu verða mæliaðferðir þessara greina samþættar.

Kveikjan að verkefninu er meðal annars eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 en eins og kunnugt er olli það töluverðri röskun á flugi í Evrópu. Markmiðið með Ofurstöðvarverkefninu er að koma á fót samhæfðu evrópsku eldfjallavöktunarkerfi, þ.e. að þróa nýjar aðferðir til að meta hættu á eldgosum og til þess að spá fyrir um öskudreifingu frá stórum eldgosum. Með þessu má draga úr þeim áhrifum sem slík gos geta haft, t.d. á flugumferð, og bæta upplýsingagjöf til almannavarna og almennings í Evrópu.

Ísland varð ekki síst fyrir valinu sem stjórnstöð rannsóknarinnar þar sem eldfjöll hér eru virk og eldstöðvarnar ólíkar. Með því að tengja saman núverandi vöktunarkerfi og nýjustu rannsóknir á að þróa því sem næst rauntímamat á íslenskum eldfjöllum og ástandi þeirra. Aðferðirnar geta síðan nýst annars staðar í heiminum.

 Vinna við verkefnið hófst 1. október síðastliðinn en fulltrúar allra þeirra sem eiga aðild að því eru nú staddir hér á landi til þess að skipuleggja vinnuna sem fram undan er. Munu þeir funda á Hótel Heklu á Suðurlandi frá fimmtudegi til sunnudags.

Freysteinn Sigmundsson.
Freysteinn Sigmundsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert