Miðstjórn ASÍ hefur hafnað tillögu sem stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness lagði fram um að forseti ASÍ yrði kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu.
„Frá hruni hefur orðið umtalsverð lýðræðisvakning á meðal almennings hér á landi og hefur ákall frá þjóðinni hvað aukið lýðræði varðar verið mjög áberandi á liðnum árum. Það hefur verið ákall á meðal hins almenna félagsmanns innan ASÍ að lýðræði í verkalýðshreyfingunni verði aukið og m.a. er lýtur að kjöri forseta Alþýðusambands Íslands, en í dag er kosningafyrirkomulag skv. lögum ASÍ með þeim hætti að hann er kosinn inni á þingum sambandsins á tveggja ára fresti,“ segir í frétt frá Verkalýðsfélagi Akraness.
Félagið segir að það sé vonbrigði að miðstjórnin hafi hafnað tillögunni, en í umsögn miðstjórnar um tillögunar segir að það fyrirkomulag að forseti sambandsins verði kjörinn í leynilegri atkvæðagreiðslu allra þingfulltrúa á þingum ASÍ samræmist best hlutverki hans innan skipulags ASÍ.