Evrópusambandið styður Evrópustofu um 221 milljón króna á tímabilinu frá ágúst 2011 til sama mánaðar 2013. Við það bætist kostnaður við kynningarstarf sem sendiskrifstofa ESB stendur fyrir, svo sem vegna kynningarfunda úti á landi.
Má því ætla að Evrópusambandið muni setja hundruð milljóna í kynningarstarf þangað til aðildarsamningur liggur fyrir en sendiskrifstofa sambandsins hér var opnuð 2010.
Fram kom í viðtali Morgunblaðsins við Timo Summa, formann sendinefndar ESB á Íslandi, í nóvember 2010 að verja ætti sem svarar 155 milljónum til kynningarstarfs næstu tvö árin og benda tölur Evrópustofu því til að bætt hafi verið í herferðina.
Rætt er við Summa í Morgunblaðinu í dag og segir hann starfsfólk sitt hafa heimsótt suma bæi tvisvar í hringferð sinni um Ísland.