Lýður og Bjarnfreður segjast saklausir

Lýður Guðmundsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, í héraðsdómi í …
Lýður Guðmundsson og lögmaður hans, Gestur Jónsson, í héraðsdómi í dag. Pressphotos.biz

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Exista, og Bjarnfreður H. Ólafsson lögmaður lýstu báðir sakleysi sínu þegar mál sérstaks saksóknara gegn þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur nú síðdegis. Lýður og Bjarnfreður eru ákærðir fyrir stórfelld brot á hlutafélagalögum.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari gaf út ákæruna á hendur þeim Lýði og Bjarnfreði í lok september. Þeim er gert að sök að hafa vísvitandi gefið rangar og villandi upplýsingar um hækkun hlutafjár til þess að tryggja yfirráð Lýðs og Ágústs bróður hans í Exista árið 2008.

Verjendur þeirra, þeir Gestur Jónsson og Þorsteinn Einarsson, fóru fyrir dómnum í dag fram á 8 vikna fresti til að skila greinargerðum í málinu. Sérstökum saksóknara fannst sá frestur ívið langur en féllst á hann eftir að Gestur færði þau rök fyrir málinu að honum gæfist ekki tími vegna anna í öðrum málum sem rekja má til embættis sérstaks saksóknara.

Málið verður því tekið fyrir næst þann 5. desember næst komandi og munu verjendur þá skila greinargerðum. 

Milljarður fór aldrei í reksturinn

Í ákæru sérstaks saksóknara kemur fram að 3. desember 2008 hafi Nýi Kaupþing banki óskað eftir greiðslu inn á lán bankans eða frekari tryggingu frá Bakkabraedur holding B.V. sem átti 45% hlut í Exista. Að öðrum kosti myndi bankinn leysa til sín hlutabréf félagsins. Bakkabraedur holding B.V. var í eigu Lýðs og Ágústs bróður hans.

Lýður hafi þá skrifað undir kaupsamning þar sem greint var frá greiðslu hlutafjárins upp á 1 milljarð króna. Samkvæmt ákæru var féð greitt inn á vörslureikning hjá lögfræðistofu og lá þar óhreyft fram á sumar 2009. Milljarðurinn hafi því aldrei runnið inn í rekstur Exista.

Bjarnfreður hafi sama dag sent villandi tilkynningu til ríkisskattstjóra og Verðbréfaskráningar Íslands um að hlutafé í Exista hefði verið aukið um 50 milljarða fyrir tilstilli greiðslu sem aldrei barst.

Ólafur Þór Hauksson í Héraðsdómi Reykjavíkur
Ólafur Þór Hauksson í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka