Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi segir sameiningu Kópavogs, Garðabæjar, Álftaness og Hafnarfjarðar ekki tímabæra. Sveitarfélögin þurfi að fást við brýnni verkefni þessa dagana. Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG í Kópavogi, lagði fram tillögu um slíka sameiningu á fundi bæjarráðs í morgun og lagði til að sameinað sveitarfélag fengi nafnið Heiðmörk.
„Það er rangt, sem hefur komið fram í fréttum sumra fjölmiðla að tillaga um sameiningu Kópavogs, Hafnarfjarðar, Álftaness og Garðabæjar hefði verið samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs í morgun. Hið rétta er að það var samþykkt að fela bæjarstjóra að leita eftir viðræðum við önnur bæjayfirvöld,“ segir Ármann.
Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu og einn sat hjá. „Ég greiddi atkvæði gegn þessari tillögu þar sem mér finnst hún ekki tímabær í ljósi þess að nú eru Garðabær og Álftanes að fara að kjósa um sameiningu eftir rúma viku,“ segir Ármann.
„Satt best að segja finnst mér þetta vera ákveðið tillitsleysi gagnvart þeim. Það getur ekki verið gott fyrsta skref þegar verið er að tala um samstarf. Að auki hvíla mörg brýnni verkefni á sveitarfélögunum um þessar mundir.“
Ármann segist ekki hafa getað kynnt sér tillöguna sem skyldi. Hún hafi verið lögð fram undir liðnum önnur mál og hafi því ekki verið á dagskrá og engir bæjarráðsmenn eða bæjarfulltrúar Kópavogs hafi haft tækifæri til að kynna sér málið á nokkurn hátt fyrirfram.
„En þar sem ég greiddi atkvæði gegn tillögunni, þá er þessi samþykkt sem slík ómerk. Allar tillögur sem lagðar eru fyrir í bæjarráði og ekki næst samstaða um þurfa að fara fyrir bæjarstjórn. Þannig að þessi tillaga verður væntanlega rædd á næsta bæjarstjórnarfundi.“