SUS hvetur kjósendur til að segja nei

Ungir sjálfstæðismenn hvetja landsmenn til að taka þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og jafnframt að segja nei við öllum spurningunum á kjörseðlinum.

„Eins og nafnið gefur til kynna er atkvæðagreiðslan ekki bindandi og er því í raun um að ræða dýrustu skoðanakönnun Íslandssögunnar. Þótt ungir sjálfstæðismenn séu mjög ósáttir við aðdraganda skoðanakönnunarinnar, og það að hún sé boðuð, þá er brýnt að raddir allra landsmanna fái að heyrast, ekki bara þeirra sem vilja kollvarpa stjórnarskránni. Ungir sjálfstæðismenn hvetja fólk til að segja nei við öllum spurningunum sem spurt er um í atkvæðagreiðslunni.“

Í fréttatilkynningu SUS eru færð eftirfarandi rök fyrir þessari afstöðu:

1.      spurning – tillögur stjórnlagaráðs
Í stjórnarskránni er að finna grundvallarréttindi manna sem mega ekki vera vafa undirorpin þegar á reynir. Allar breytingar á stjórnarskránni verður því að nálgast af yfirvegun og ró. Tímabundnir efnahagserfiðleikar kalla ekki á viðamikla umbyltingu á grundvallarmannréttindum. Mikilvægt er að stjórnarskráin sé hafin yfir tíðaranda og pólitískt dægurþras. Sé vilji til breytinga er ferli til þess lögfest í 79. gr stjórnarskrárinnar sem hefur sannað gildi sitt og tryggir að ekkert óðagot sé viðhaft við svo veigamiklar breytingar. Stjórnarskráin hefur nú þegar að geyma ákvæði sem tryggja grundvallarmannréttindi borgaranna enda náðist breið sátt milli allra stjórnmálaflokka um svo sjálfsögð stjórnarskrárákvæði. Þá er mikilvægt að haldið sé í þá hefð að þverpólitísk sátt sé um breytingar á stjórnarskránni svo að stjórnarskráin sé allra, ekki sumra.

Af ofangreindum ástæðum hvetja ungir sjálfstæðismenn fólk til að segja nei við spurningunni um hvort tillögur Stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

2.      spurning – þjóðareign
Það er samdóma álit lögfræðinga sem skrifað hafa um þjóðareign að þjóð geti ekki átt eignir. Auðlindir geta bara verið í eigu hins opinbera annars vegar eða einstaklinga og lögaðila hinsvegar. Sé ætlunin að ríkið eigi að vera eigandi auðlinda á Íslandi er réttast að menn segi það berum orðum. Brýnt er að öll ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýrt orðuð og að sem minnst óvissa sé um merkingu þeirra. Stjórntæki ríkisins eru lög, en ekki eignarréttur. Vilji ríkið tryggja að auðlindir séu nýttar með hagkvæmum og sjálfbærum hætti er engin þörf á því að það sé eigandi þeirra, heldur dugir almenn lagasetning til.

Af ofangreindum ástæðum hvetja ungir sjálfstæðismenn fólk til að segja nei við spurningunni um hvort í stjórnarskrá eigi að lýsa náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, þjóðareign.

3.      spurning – þjóðkirkja
Rétturinn til að trúa því sem menn vilja, eða trúa ekki, er meðal mikilvægustu mannréttinda hverrar þjóðar. Fullt trúfrelsi ríkir ekki nema fullt jafnræði sé á milli trúarhópa. Tilvist sérstakrar ríkiskirkju gerir það að verkum að trúarhópum er mismunað.

Af ofangreindum ástæðum hvetja ungir sjálfstæðismenn fólk til að segja nei við spurningunni um hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi.

4.      spurning – persónukjör
Ekkert í núverandi stjórnarskrá fyrirbyggir að viðhaft sé persónukjör. Tillögur stjórnlagaráðs munu hinsvegar þrengja kost á vali á kosningafyrirkomulagi. Nánast öll lýðræðisríki viðhafa kosningar á milli flokka. Eðlilegt er að fólk sem aðhyllist sömu hugsjónir bjóði krafta sína fram saman. Fólk veit betur að því hverju það gengur þegar það kýs flokka, heldur en einstaklinga. Það er því líklegra að vilji kjósenda nái fram að ganga og það er því lýðræðislegri aðferð. Reynsla af persónukjöri hérlendis í ógildum stjórnlagaþingskosningum sýnir að persónukjör er vart framkvæmanlegt. Það myndi líka leiða til gríðarlegra hrossakaupa ef sætta þyrfti 32 ólík sjónarmið til að mynda starfhæfa ríkisstjórn, en ekki t.d. bara hugsjónir tveggja flokka. Persónukjör myndi líka leiða til þess að stjórnmál snerust meira um menn en málefni.

Af ofangreindum ástæðum hvetja ungir sjálfstæðismenn fólk til að segja nei við spurningunni um hvort í stjórnarskrá eigi að heimila persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er.

5.      spurning – atkvæðavægi
Ungir sjálfstæðismenn vilja að atkvæðavægi sé sem jafnast. Mikill munur á atkvæðavægi jafngildir því í raun að sumir hafi fleiri atkvæði en aðrir, en slíkt fyrirkomulag er augljóslega óeðlilegt. Algjöru atkvæðajafnvægi verður þó ekki náð nema að landið allt sé eitt kjördæmi eða að setja þurfi flóknar reglur um fljótandi kjördæmamörk. Öll norðurlöndin, og flest vestræn ríki, kjósa fólk úr kjördæmum. Það fyrirkomulag einfaldar valkosti kjósenda. Reynsla af landskosningu án kjördæma hérlendis í ógildum stjórnlagaþingskosningum sýnir að slíkt er vart framkvæmanlegt vegna þess gríðarlega fjölda möguleika sem kjósendur hafa.

Af ofangreindum ástæðum hvetja ungir sjálfstæðismenn fólk til að segja nei við spurningunni um hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert