Svandís Svavarsdóttir viðurkennir að betra væri ef stjórnarflokkarnir töluðu einu máli þegar kemur að stefnu varðandi virkjunarframkvæmdir. Hins vegar telji hún ekki óeðlilegt að skiptar skoðanir séu á málinu. Hún segir Landsvirkjun vinna innan ramma laganna og ekki beri að „amast“ við því.
„Ég er svo sem sammála því að það væri betra að við töluðum í takt í þessu efni. En það endurspeglar það hversu stórt mál er þarna á ferðinni. Allt sem viðkemur orkuframkvæmdum er viðkvæmt málefni og það er ekki óeðlilegt að ólík sjónarmið séu uppi um þau,“ segir Svandís.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið byggi við erfitt starfsumhverfi þegar ekki ríkti einhugur innan ríkisstjórnarinnar um stefnu varðandi virkjunarframkvæmdir.
Vísaði hann þar í orð Svandísar sem segir að betra væri ef Landsvirkjun biði með framkvæmdir á meðan unnið væri að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að „þegjandi samkomulag“ ríkti um að ekki bæri að fara í frekari virkjunarframkvæmdir á meðan unnið væri að rammaáætlun.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kannaðist ekki við slíkt samkomulag í fyrirspurnartíma á Alþingi og sagðist ekki telja ástæðu til að „amast við“ framkvæmdum Landsvirkjunar við Bjarnarflag.
„Ég hef lagt áherslu á að þetta er mjög viðkvæmt ferli sem við erum í. Þingið á eftir að komast að niðurstöðu um rammaáætlun og það færi vel á því að allir héldu að sér höndum á meðan því ferli lýkur,“ segir Svandís en bætir við, að Landsvirkjun sé „ í sjálfu sér að fara eftir öllum reglum og ég er ekki að amast við því,“ segir Svandís
Landsvirkjun vinnur að landmótunarframkvæmdum við Bjarnarflag til þess að undirbúa vinnu að virkjun sem mun mögulega rísa á svæðinu. Landvernd hefur sem kunnugt er óskað eftir því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan nýtt umhverfismat fer fram.