Jón Ferdinand Sigurðsson frá Draflastöðum í Fnjóskadal í S-Þingeyjarsýslu fann í gær, lamb á lífi eftir mánaðarvist í fönn í fjalli ofan við Draflastaði. Lambið var ótrúlega sprækt eftir þessa löngu vist.
Óveðrið skall á 10. september, en þúsundir fjár hraktist undan veðrinu og fennti á kaf. Bændur og björgunarsveitarmenn hafa grafið fjölda fjár úr fönn, en sumar voru þar í nokkrar vikur. Enn virðist vera fé á lífi í sköflunum.
Jón segir í samtali við 641.is að það hafi verið tilviljun ein að hann fann lambið. Hann fór á fjórhjólinu sínu slóða sem liggur ofan skóga norðan við Draflastaði til að hyggja að fé og ákvað að leita af sér allan grun á stað þar sem höfðu verið kindur.
Þegar Jón kom á staðinn rak lambið hausinn upp í gegnum lítið op sem bráðnað hafði úr snjónum og kippti Jón því þá upp. Um var að ræða tvílembing og var lambið á móti dautt, enda lá það í læk sem er á þessum stað. Það varð hinu lambinu til lífs að það gat staðið ofan á því dauða og blotnaði því ekki.
Líklega varð það lambinu til lífs að nokkur gróður var á þeim stað sem það fennti, bæði berjalyng og gras. Auk þess gat það drukkið nægju sína af vatni.