Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stefnir á 2. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem haldið verður 24. nóvember næstkomandi. „Ég býð mig aftur fram vegna þess að sjaldan hefur verið brýnna að taka með skynsemi og þekkingu á veigamiklum málum sem varða þjóð okkar miklu,“ segir hann í yfirlýsingu en helstu mál hans eru samkvæmt henni:
1. Snjóhengjan: Alvarlegust er staðan með krónueign erlendra aðila. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar Íslendinga og erlendra kröfuhafanna að íslenskt efnahagslíf verði blómlegt og sterkt geti þannig skapað sem mestan gjaldeyri.
2. Gjaldeyrishöftin: Lausn á lið 1 er forsenda þess að fella niður gjaldeyrishöftin sem er mikilvægt skref til að skapa heilbrigt atvinnulíf.
3. Skattamál: Lækka þarf skatta og fækka undantekning. Reynslan og hagfræðin sýnir að þá vaxa skattstofnar og umsvif atvinnulífsins og tekjur ríkissjóðs vaxa.
4. Auðlindir: Nýta þarf auðlindir landsins og losa sjávarútveg úr þeirri úlfakreppu sem hann er í.
5. Sparnaður og ráðdeild: Beita þarf skattkerfi og bótakerfi til að hvetja til sparnaðar og ráðdeildar og jafnfram hvetja almenning og fyrirtæki til fjárfestinga.
6. Ríkisfjármál: Auka verður aga í fjármálum ríkisins og sveitarfélaga.
7. Bótakerfi: Samræma þarf bótakerfi lífeyrissjóða og Almannatrygginga og gera velferðakerfið öflugt og skilvirkt.
8. Frelsi: Sjaldan hefur verið mikilvægara en nú að standa vörð um frelsi einstaklingsins.
Pétur segir ennfremur í framboðsyfirlýsingu sinni að hann hafi á árunum fyrir hrun ítrekað bent á það ójafnvægi sem verið hafi í kerfinu. „Þannig ræddi ég t.d. fyrir hrun bæði við FME um hringferla peninga og Seðlabankann um fyrirséð vandamál vegna krónubréfanna. Vænst þykir mér þó um framvindu Icesave málsins eftir hrun.“
Þá segir Pétur að vegna framboðsins telji hann rétt að kjósendur viti að hann hafi greinst með blöðruhálskrabbamein fyrir þremur árum síðan og glími enn við það. „Að lokum vil ég skora á allt klárt og ötult fólk að bjóða sig fram til starfa á Alþingi. Hvar í flokki sem það stendur. Sérstaklega skora ég á þær frábæru konur sem ég hef kynnst í starfi Sjálfstæðisflokksins að bjóða fram krafta sína og láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð.“