Stjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi harmar úrsögn Róberts Marshall, þingmanns úr Samfylkingunni. Samstarf hans við stjórnina og hina þingmenn kjördæmisins hefur verið með miklum ágætum á kjörtímabilinu og ekki borið á neinum málefnaágreiningi innan hópsins.
„Að Róbert segi nú skilið við Samfylkinguna er okkur félögum hans undrunarefni og við bendum honum góðfúslega á að það þingsæti sem hann skipar nú er okkur dýrmætt enda kostaði það mikla sameiginlega baráttu Samfylkingarfólks í Suðurkjördæmi.
Af sömu tryggð og velvild og ríkt hefur milli Róberts og Samfylkingarfólks í Suðurkjördæmi, óskum við þess að hann standi með því fólki sem kaus hann og hagsmunum jafnaðarmanna í bráð og lengd. Stjórn kjördæmisráðs fagnar jafnframt yfirlýsingu Róberts um áframhaldandi stuðnig við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn kjördæmaráðsins.