Fjörugur fundur hjá Framsókn

Frá fundi Framsóknar um stjórnarsrkármálið.
Frá fundi Framsóknar um stjórnarsrkármálið. Ljósmynd/Framsóknarflokkurinn

Þeir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur og Pétur Gunnlaugsson stjórnlagaráðsliði fóru á kostum á fundi um stjórnarskrármálið sem haldinn var í Framsóknarhöllinni á Hverfisgötu í dag. Var fjölmenni á fundinum og var hann að sögn manna gríðarlega fjörugur og heitur.

Jón Ingi Gíslason, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur segir að það sé ekki ofsagt að báðir framsögumennirnir hafi slegið í gegn, þó að þeir hefðu mjög andstæðar skoðanir á stjórnarskrármálinu. Pétur hefði vitanlega fylgt sínum tillögum en Haukur hefði gert ýmsar athugasemdir við málið eins og það væri lagt fram, þó að hann væri sammála mörgum um að núgildandi stjórnarskrá þyrfti endurskoðunar við.

Eins og framboðsfundur í gamla daga

Fundurinn þótti vel sóttur og áætlar Jón Ingi að á bilinu 40-50 manns hafi verið á honum. Í fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum kemur fram að menn hafi haft á orði í fundarlok að þeir Haukur og Pétur hefðu sýnt  „tilþrif eins og hjá bestu uppistöndurum“ og segir Jón Ingi það engar ýkjur. Menn hefðu svo sem átt von á því frá Pétri, sem einnig er útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, en að Haukur hefði komið mönnum skemmtilega á óvart.

„Þetta var svona fundur eins og þeir voru í gamla daga,“ segir Jón Ingi og minnti fundurinn hann á upptökur sem hann hefur séð af framboðsfundum á Austfjörðum þar sem kempur á borð við Lúðvík Jósepsson hefðu látið til sín taka. „Þá voru tilþrif í ræðustólnum,“ segir hann og bætir við að fundargestir hafi haft margar og mjög heitar skoðanir á málinu. „Enda er það tilgangurinn með þessum fundum að fólk fái að heyra mismunandi skoðanir og mynda sér sínar eigin og spyrja tengda aðila, enda báðir frummælendur vel að sér í þessum málum.“

Frá fundi Framsóknar um stjórnarsrkármálið.
Frá fundi Framsóknar um stjórnarsrkármálið. Ljósmynd/Framsóknarflokkurinn
Frá fundi Framsóknar um stjórnarskrármálið.
Frá fundi Framsóknar um stjórnarskrármálið. Ljósmynd/Framsóknarflokkurinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert