Tékkneski hlauparinn René Kujan er nú lagður af stað í tuttugasta og fyrsta maraþonið sitt, en hann hleypur eitt maraþonhlaup á hverjum degi hringinn í kringum Ísland til styrktar íþróttafélagi fatlaðra í Prag. Gerir hann ráð fyrir því að hlaupa hringinn í kringum landið á 30 dögum.
René hóf hlaup sitt í dag um 20 kílómetra fyrir austan Akureyri, og mun hann því hlaupa í gegnum höfuðstað Norðurlands í dag. René segir að hann vonist til þess að aðrir hlauparar og skokkhópar muni hlaupa með sér, og veit hann af einum hóp sem ætlar að hitta hann klukkan þrjú í dag við bensínstöð N1 við Leirutjörn. René segir að símanúmerið sitt sé á heimasíðu hlaupsins, þannig að fólk geti haft samband við sig vilji það hlaupa einhvern spöl með sér.
En hvernig líst honum á útsýnið? „Ég nýt þess í hverju skrefi. Þegar maður hleypur í fimm til sex klukkutíma á dag að þá gefst manni nægur tími til þess að meðtaka hið frábæra landslag Íslands,“ segir René, en þetta er í sjötta sinn sem hann kemur hingað til landsins.
Frétt mbl.is: 30 maraþon á 30 dögum