1.100 hugmyndir frá 32 skólum

Verðlaunaafhending fór fram í lokahófi Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda í gær en keppnin var haldin í 21. sinn um helgina. Athöfnin fór fram í Háskólanum í Reykjavík en 40 þátttakendur víðsvegar að af landinu tóku þátt í vinnusmiðju keppninnar. Þar af fengu alls 14 þátttakendur verðlaun og þar af voru tólf hugmyndir. Samtals bárust í ár 1.100 hugmyndir frá 32 grunnskólum.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verndari keppninnar, afhenti verðlaun og flutti ennfremur hátíðarræðu. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flutti einnig hvatningarræðu, afhenti viðurkenningarskjöl til þátttakenda sem og farandbikar til grunnskóla. Þá kynntu þátttakendur hugmyndir sínar fyrir gestum, en JCI stóð fyrir þjálfun í framsögu í vinnusmiðju keppninnar.

Farandbikarinn í flokki stærri skóla, sem veittur er fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í keppninni, hlaut Hofsstaðaskóli í Garðabæ en þetta er fjórða árið í röð sem skólinn hlýtur bikarinn. Farandbikarinn í flokki minni skóla hlaut Brúarásskóli á Fljótsdalshéraði en þetta var í fyrsta skipti sem sá bikar var veittur.

Fyrstu verðlaun í flokki um landbúnað hlaut Kristinn Knörr Jóhannesson frá Grunnskólanum utan vatna; í flokki um tölvur og tölvuleiki María Jóngerð Gunnlaugsdóttir frá Egilsstaðaskóla; í flokki uppfinninga Óttar Egill Arnarsson frá Hofsstaðaskóla og í flokki útlits- og formhönnunar Ægir Örn Kristjánsson, einnig frá Hofsstaðaskóla.

Fyrstu verðlaun voru iPad-spjaldtölva og þriðju verðlaun Bamboo-teikniborð í boði Samtaka iðnaðarins og Epli.is. Önnur verðlaun voru glæsilegt námskeið í tölvuleikjaforritun frá Skema.is. Þá fengu að auki 12 stigahæstu þátttakendurnir ferð í Fab Lab í boði Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og ennfremur gjafabréf í Háskóla unga fólksins frá Háskóla Íslands.

Guðrúnarbikarinn hlaut María Jóngerð Gunnlaugsdóttir úr Egilsstaðaskóla en bikarinn er veittur hugmyndasmið sem er talinn hafa skarað fram úr fyrir hugmyndaauðgi, dugnað, kurteisi og samviskusemi. Guðrúnarbikarinn er afhentur til eignar en það var Anna Hulda Ólafsdóttir sem afhenti bikarinn til minningar um móður sína, Guðrúnu Þórsdóttir.

Fram kemur í fréttatilkynningu að tilgangur keppninnar sé „að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum og gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og hvernig þroska megi hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka