Geir Þorsteinsson formaður KSÍ segir að ekki verði tekin ákvörðun um það hvort Aron Einar Gunnarsson muni halda fyrirliðabandi sínu hjá knattspyrnulandsliði Íslands.
„Við hyggjumst klára þennan leik á móti Sviss og svo í kjölfarið munum við fara yfir það hvað við gerum í þessu máli,“ segir Geir.
Aron lét þau óheppilegu ummæli falla fyrir leik á móti Albaníu að þar í landi byggju „glæpamenn“. Þau vöktu hörð viðbrögð, bæði hér á landi og í Albaníu. Aron baðst afsökunar á ummælum sínum í yfirlýsingu eftir leikinn. Jafnframt bað Geir forseta knattspyrnusambands Albaníu og þingmann í landinu afsökunar.
„Ég ræddi málin við Lars (Lagerbäck), en við eigum eftir að klára það mál endanlega,“ segir Geir.
Grétar Rafn Steinsson verður fyrirliði Íslands á móti Sviss á þriðjudag, en Aron Einar Gunnarsson er í leikbanni vegna of margra áminninga í undankeppni HM.