„Slíkt ástand á ekki að líða“

Gunnlaugur M. Sigmundsson.
Gunnlaugur M. Sigmundsson. mbl.is

„Hverjar sem endanlegar lyktir þessa tiltekna máls verða er það ljótur blettur á íslensku samfélagi að til sé fólk sem telji pólitískum skoðunum sínum til framdráttar að nota blogg og netmiðla til að níða nafngreinda einstaklinga með ósannindum og gífuryrðum,“ segir Gunnlaugur M. Sigmundsson í yfirlýsingu vegna meiðyrðamáls síns á hendur bloggaranum Teiti Atlasyni en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Teit vegna hluta málsins í síðasta mánuði og vísaði öðru frá vegna þess að það væri ekki dómtækt.

Gunnlaugur kærði niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar sem tók kæruna ekki til greina með úrskurði síðastliðinn föstudag. „Það er miður að Hæstiréttur hafi hafnað því að málið hljóti efnislega meðferð þrátt fyrir nýlega dóma Hæstaréttar í málum þar sem málatilbúnaður var með svipuðum hætti. Með frávísun á grundvelli formgalla tók dómurinn því ekki afstöðu til þess hvort níð eins og það sem við hjón höfum mátt þola af hálfu Teits Atlasonar sé heimilt lögum samkvæmt,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Þá segir Gunnlaugur að Teitur hafi upplýst fyrir héraðsdómi að ástæðan fyrir skrifum sínum um hann og konu hans hafi verið sú að hann hafi látið ummæli sonar þeirra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins, fara í taugarnar á sér.

„Þjóðfélag er komið í mikinn vanda ef fjölmiðlar og dómstólar láta óátalið að foreldrar eða börn stjórnmálamanna þurfi að sæta persónulegum árásum vegna stjórnmálastarfa ættingja sinna. Slíkt ástand á ekki að líða og við munum halda áfram að berjast gegn slíkri þróun,“ segir Gunnlaugur í yfirlýsingu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert