„Ég var að vona að þarna væri kominn fyrsti íslenski loftsteinsgígurinn, en svo var ekki. Maður verður að halda áfram að leita,“ sagði Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og forstöðumaður Eldfjallasafnsins í Stykkishólmi.
Hann fór í gær að athyglisverðri jarðmyndun sem er syðst í Hafnarfjalli í Borgarfirði, ofan við Leirárdal. Skýrt afmarkaður gígur sem sést vel á loftmyndum er austan við tindinn Ölver og nálægt Hrossatungum og Geldingaárhálsi, milli Hafnardals og Leirárdals.
Í umfjöllun um gíg þennan í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að spurningin sem Haraldur vildi fá svar við var hvers konar fyrirbæri þetta eiginlega væri. Nokkur umræða hefur einnig verið á netinu um hvernig þessi jarðmyndun kynni að hafa orðið til.