Þrír mótorhjólamenn ætla í dag að kæra til lögreglu rútubílstjóra sem sveigði ítrekað í veg fyrir þá og reyndi að þröngva þeim út af Reykjanesbrautinni í gær. „Bílstjórinn lagði okkur hreinlega í lífshættu,“ segir Ragnar Þorláksson, einn mótorhjólamannanna.
Forsaga málsins er sú að mótorhjólamennirnir, sem allir tilheyra hjólahópnum Hjólavinir og valkyrjur, hittust í gær við húsnæði Rjóðursins, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn. Hópurinn gerir það gjarnan um helgar til að leyfa börnunum að skoða mótorhjólin.
Í kjölfarið var ákveðið að hjóla suður í Garð. Hópurinn skipti sér upp í minni hópa og Ragnar segist hafa verið á Reykjanesbrautinni um kl. 15. „Við vorum ekki öll saman í hnapp og því sá ég ekki sjálfur fyrsta atvikið sem átti sér stað,“ segir Ragnar. Atvikinu hefur verið lýst fyrir Ragnari með þeim hætti að mótorhjólakona hafi verið að reyna að taka fram úr rútunni, hugsanlega ekki við bestu skilyrði, og að bílstjóri rútunnar hafi sveigt í veg fyrir hana og reynt að þvinga hana yfir á akrein með bílum úr gagnstæðri átt.
Ragnar segist hins vegar hafa séð með eigin augum það næsta sem gerðist en þá reyndi bílstjórinn að keyra annan mótorhjólamann niður, eins og hann orðar það. Sá hafði orðið vitni að því er rútubílstjórinn sveigði í veg fyrir mótorhjólakonuna. Vegurinn var þá orðinn tvöfaldur og mótorhjólamaðurinn kominn á vinstri akreinina og rútan var á þeirri hægri. „Hann var með konuna sína aftan á hjólinu. Hann keyrði upp að rútunni og hristi höfuðið yfir aksturslagi bílstjórans,“ segir Ragnar. „Þá sveigði hann bara í veg fyrir hann.“
Er sá mótorhjólamaður var kominn fram fyrir rútuna og Ragnar upp að hlið hennar, reynir bílstjórinn, að sögn Ragnars, að leika saman leikinn. „Ég hægði á mér og fór aftur fyrir hann.“ Hann reyndi þá að keyra upp að rútunni hægra megin og það sama gerðist, bílstjórinn sveigði í veg fyrir hann. Ragnar reyndi þá aftur að fara framúr rútunni vinstra megin en allt kom fyrir ekki, bílstjórinn sveigði í veg fyrir hann í þriðja sinn. Ragnar segir að rútubílstjórinn hafi þröngvað sér alveg út í kant. „Á tímabili var ég drulluhræddur, þá var hann kominn með mig alveg út í kant.“
Félagi Ragnars sem hafði ekið á undan honum hringdi á lögregluna en Ragnar fylgdi rútunni eftir upp í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bílstjórinn neitaði hins vegar að koma út úr bílnum og ræða málin við Ragnar en ræddi við lögregluna er hún kom á staðinn skömmu síðar. Engir farþegar voru í rútunni.
Fyrir utan mótorhjólamennina sjálfa séu einnig önnur vitni að atvikinu.
Ragnar setti sig í samband við rútufyrirtækið í gær og ætlar að eiga fund með forsvarsmönnum þess í dag og útskýra málið nánar.
Ragnar er 44 ára fjölskyldumaður „og ég er ekki sáttur við að einhver maður út í bæ reyni að keyra mig niður bara vegna þess að hann er reiður út í einhvern annan.“
Hann segist aldrei hafa lent í öðru eins. Hann hafi lent í því að bílstjórar aki í veg fyrir sig, en ekki ítrekað eins og þarna var gert. „Hann reyndi að keyra niður þrjú hjól í 8-10 hjóla hópi, þar af er eitt hjólið með farþega... hann var hreinlega að leggja okkur í lífshættu.“