Samstaða vill taka upp „nýkrónu“

Lilja Mósesdóttir ásamt Birgi Erni Guðjónssyni nýkjörnum formanni Samstöðu.
Lilja Mósesdóttir ásamt Birgi Erni Guðjónssyni nýkjörnum formanni Samstöðu. Ljósmynd/Kristján Jóhann Matthíasson.

Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar, telur að skoða verði upptöku „nýkrónu“ með mismunandi skiptigengi sem valkost í gjaldmiðilsmálum. „Hrægömmum sem eiga froðukrónur og bólueignir verður boðið að skipta yfir í nýkrónu á hrakvirði eða á afar lágu gengi gömlu krónunnar,“ segir í ályktun flokksins.

Á landsfundi Samstöðu var ályktað um verðtryggingu, stöðu bótaþega, aðildarviðræður um ESB og sjávarútvegsmál. Auk þess var samþykkt ályktun sem Lilja Mósesdóttir flutti um gjaldmiðilskreppuna

Samkvæmt ályktuninni kallar Samstaða eftir áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem felur í sér að afskriftum og skattlagningu verði beitt til að minnka snjóhengjuna verulega. Há skattlagning snjóhengjunnar til að draga úr útstreymi fjármagns muni brjóta í bága við alþjóðasamninga og jafnvel eignarrétt eigenda hennar.

„Skoða verður upptöku nýkrónu með mismunandi skiptigengi sem valkost í gjaldmiðilsmálum. Hrægömmum sem eiga froðukrónur og bólueignir verður boðið að skipta yfir í nýkrónu á hrakvirði eða á afar lágu gengi gömlu krónunnar.  Ef þeir hafna því þá halda þeir eignarrétti á gömlu krónunum sínum,“ segir í ályktuninni.

Samstaða er á því að áframhald sjálfstæðrar gengis- og peningastefnu tryggi best hagsmuni Íslands á næstu árum. „Sjálfstæður gjaldmiðill geri stjórnvöldum kleift að bregðast við efnahagsáföllum með gengislækkun sem tryggir að allir taki á sig byrðar en ekki aðeins þeir sem missa vinnuna. Gengislækkun framkallar m.ö.o.  „launalækkun án blóðsúthellinga“.

Endurskoða verður sem fyrst markmið peningastefnunnar sem m.a. bjó til snjóhengjuvandann. Í stað verðbólgumarkmiðs á að taka upp markmið um fulla atvinnu og gengisstöðugleika. Gengisstöðugleiki næst ekki nema með sérstökum sveifluskatti á stórar fjármagnshreyfingar inn og út úr hagkerfinu og takmörkunum á útlánastarfsemi bankanna.“


Samstaða
Samstaða
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert