Fjölmiðlar í Evrópu flytja oft villandi eða beinlínis rangar fréttir af Bandaríkjunum sem skýrist einkum af ólíkum stjórnmálaskoðunum fjölmiðlamanna og almennings í Bandaríkjunum og Evrópu. Þeir gleyptu við því sem væri neikvætt vegna þess að það væri frekar í samræmi við fyrirframákveðnar skoðanir þeirra sjálfra.
Þetta kom meðal annars fram í erindi norska blaðamannsins og rithöfundarins Jans Arilds Snoen sem hann flutti í dag á fundi í Háskóla Íslands í boði Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt (RNH) og Icelandic-American Business Forum. Hann hefur sérhæft sig í bandarískum stjórnmálum og menningu og gagnrýnt hlutdræga umfjöllun norskra fjölmiðla um Bandaríkin.
Snoen sagði ennfremur í erindi sínu að með reglulegu millibili væru gerðar kannanir á stjórnmálaskoðunum norskra fjölmiðlamanna og í þeim hefði komið í ljós að þeir væru allajafna mun lengra til vinstri en þjóðin í heild. Hliðstæðar kannanir hefðu verið gerðar í Svíþjóð og Danmörku sem skilað hefðu sambærilegum niðurstöðum og sagðist Snoen gera ráð fyrir að það sama ætti við annars staðar í Evrópu.
Hann sagði að fjölmiðlamenn reyndu ekki að vera hlutdrægir en þeir tryðu því hins vegar margir að þeir gætu skilið að einkaskoðanir sínar og störf sín fyrir þá fjölmiðla sem þeir störfuðu fyrir. Hins vegar væru þeir óafvitandi ekki eins gagnrýnir á þær upplýsingar sem ættu samleið með stjórnmálaskoðunum þeirra og lífsviðhorfum og ær upplýsingar sem það ætti ekki við um.
Þá væri sýn fólks í Bandaríkjunum og Evrópu gagnvart stjórnmálum og samfélagsmálum ólík. Bandaríkjamenn væru almennt mun trúaðri en Evrópumenn en engu að síður væri trúarleg þröngsýni og fordómar á undanhaldi í Bandaríkjunum. Margir Evrópumenn virtust skipta Bandaríkjamönnum í annars vegar repúblikana og hins vegar demókrata. Repúblikanar væri þá samnefnari fyrir það sem þeim líkaði ekki við í fari Bandaríkjamanna og öfugt.
Snoen sagðist engu að síður telja að umræddir fordómar gagnvart Bandaríkjunum væru á undanhaldi. Þeir væru að hans mati sterkastir hjá 68-kynslóðinni svokallaðri en hún væri enn mjög áhrifamikil í norskum fjölmiðlum. Yngri fjölmiðlamenn væru víðsýnni og opnari fyrir fleiri sjónarmiðum og fyrir vikið ekki eins hlutdrægir gagnvart Bandaríkjunum.