Magnús Orri Schram sækist eftir 2-3. sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi sem fram fer þann 10. nóvember.
Magnús Orri segir í fréttatilkynningu: „Ég vonast eftir því að fá stuðning í eitt af efstu sætum á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Ég tel mikilvægt að á næsta kjörtímabili verði gætt að samkeppnishæfni atvinnulífsins, bæði með bættum ytri skilyrðum þar sem aðild að ESB gegnir lykilhlutverki, og ekki síður í gegnum hvetjandi skattkerfi sem laðar fram nýsköpun og framþróun. Verkefni stjórnmálamanna er að skapa aðstæður fyrir nútíma atvinnulífi sem byggir á þekkingu, og býr til störf og verðmæti í sátt við náttúruna.“
Magnús Orri var kjörinn á þing fyrir Samfylkinguna árið 2009 og hefur meðal annars gegnt varaformennsku í viðskiptanefnd og atvinnuveganefnd þingsins. Hann hefur verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá síðustu áramótum er hann tók við af Oddnýju G. Harðardóttur sem skipuð var fjármálaráðherra.
Magnús Orri Schram er 40 ára Kópavogsbúi. Hann er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu (MBA) í stjórnun og viðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur einnig stundað doktorsnám í frumkvöðlafræðum við sama skóla. Hann er giftur Herdísi Hallmarsdóttur hæstaréttarlögmanni og eiga þau tvö börn.
Nýlega gaf Magnús Orri út bókina Við stöndum á tímamótum þar hann kynnir hugmyndir sínar að nýrri atvinnustefnu, hvernig skapa megi eftirsóknarverð störf og tryggja að hér á landi verði lífskjör sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndunum.
Magnús Orri hefur m.a. starfað sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu, framkvæmdarstjóri hjá KR og rekið eigið fyrirtæki. Þá hefur Magnús Orri starfað sem stundakennari við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Síðustu árin fyrir þingmennsku starfaði hann sem sölu- og markaðsstjóri fyrir vörur Bláa Lónsins á erlendum mörkuðum, segir enn fremur í tilkynningu.