„Erlendar skuldir þjóðarinnar eru mjög miklar. Því miður vitum við ekki hve miklar þær eru. Það sem við vitum er að Seðlabankinn hefur augljóslega gert mistök við mat á skuldunum“, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Ástæðan fyrir því að við finnum tiltölulega lítið fyrir miklum erlendum skuldum, segir Guðlaugur Þór, er að hér ríkja gjaldeyrishöft og það er mögulegt að viðhafa þau á meðan stóru þrotabúin, bankarnir, eru í slitameðferð.
Þá segir Guðlaugur Þór: „Nú eru í gangi samningaviðræður við kröfuhafana um frumvörp að nauðasamningum. Að þeim loknum munu kröfuhafarnir formlega eignast nýju bankanna auk þess að fá beina stjórn yfir eignum gömlu bankanna. Það býður þeirri hættu heim að þeir geti nálgast eignir bankanna og farið þannig í kringum gjaldeyrishöftin, eins Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir hefur bent á. Slíkt hefði mjög alvarleg áhrif á íslenskan almenning“.