Barnamaraþon í Laugardalshöll

Landsþekktir einstaklingar hlupu ásamt 140 krökkum á aldrinum 11-13 ára í alþjóðlegu barnamaraþoni Barnaheilla í dag. Hlaupið var til að vekja athygli á hungri og vannæringu barna en um 20 þúsund börn víða um heim tóku þátt í hlaupinu en það voru börn í Kenýa sem hlupu á besta tímanum.

Maraþonið var hlaupið í boðhlaupsformi þar sem hver leggur var 200 metrar en Logi Bergmann Eiðsson og Karl Ágúst Úlfsson voru á meðal þeirra sem hlupu með krökkunum.

Íslensku liðin fjögur, sem komu frá Álfhólsskóla í Kópavogi, Hofsstaðaskóla í Garðabæ, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, stóðu sig með mikilli prýði. Lið Víðistaðaskóla hljóp maraþonið á 2:10:52, sem er einungis um sjö mínútum lengri tími en heimsmetið í maraþoni, sem Kenýamaðurinn Patrick Macau á, en hann hljóp heilt maraþon á 2:03:38. Liðið hafnaði í 44. sæti af þeim 390 liðum sem nú hafa lokið keppni. Næstbestum tíma náðu nemendur Álfhólsskóla í Kópavogi, 2:12:59.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka