Það verður tímafrekt að telja atkvæði sem greidd verða í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem fram fer á laugardag. Þetta segja formenn yfirkjörstjórnanna sex. „Þetta fer eftir kjörsókn, fyrst og fremst,“ segir Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður, í samtali við mbl.is, spurður út í talninguna. Aðrir formenn, sem mbl.is ræddi við, taka í sama streng.
Sex spurningar verða á kjörseðlinum og er hverri þeirra hægt að svara með já-i eða nei-i. „Það má alveg búast við því að þetta verði mun tímafrekara,“ segir Katrín Theodórsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, í samtali við mbl.is. Þessi kosning sé um margt öðruvísi en aðrar kosningar og það sé óvissu háð hvenær vænta megi fyrstu talna. „Við erum að renna svolítið blint í sjóinn með þetta,“ segir hún og undir það taka aðrir formenn.
Menn eru hins vegar ekki á einu máli um hvaða aðferð sé best við talningu atkvæðanna, en tvær koma til greina. Önnur þeirra gengur út að fara yfir allar sex spurningarnar í einu á hverjum kjörseðli fyrir sig. Þannig verður hver og einn seðill afgreiddur í einu lagi. Hin aðferðin gengur út á fara yfir hverja spurningu fyrir sig á seðlunum. Menn ljúki fyrst við að fara yfir fyrstu spurninguna fyrst á öllum kjörseðlunum. Í framhaldinu verði spurning tvö tekin fyrir á hverjum seðli fyrir sig og svo koll af kolli.
„Við ætlum að fara þá leið að telja sex sinnum,“ segir Sveinn, þ.e. fara yfir eina spurningu í einu. Hann tekur í sama streng og Katrín að búast megi við því að talning atkvæða verði tímafrek. Hann vonast að hægt verði að birta fyrstu tölur um klukkustund eftir að talningin hefst. Sveinn tekur fram að menn hugsi þó fyrst um fremst um það að tryggja örugga talningu.
Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir á ákveðið hafi verið að telja hvert atkvæði fyrir sig, þ.e. skrá allar sex spurningarnar í einu. „Við erum bjartsýnir á að þetta gangi vel og reiknum með að við verðum fljótlega með tölur,“ segir Karl. Fyrstu tölur gætu því verið klárar á milli 22.30 og 23. „Við erum bjartsýn á að klára þetta undir morgun. Ef það gengur illa þá munum við bara klára þetta á sunnudaginn.“
Jónas Þór Guðmundsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, segir að undirbúningurinn hafi gengið ágætlega og að allt sé á ætlun. Þar sé stefnt að því að telja hverja spurningu fyrir sig, þ.e. hvert atkvæði sex sinnum. Það verði einfaldlega að koma í ljós hvenær menn verði tilbúnir með fyrstu tölur en það skipti höfuðmáli varðandi talninguna hver kjörsóknin verði.
Páll Hlöðvesson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir að það liggi ekki fyrir að svo stöddu hvora aðferðina menn muni nota við talninguna. Hann bendir á að í Norðausturkjördæmi séu aðstæður aðrar en í Reykjavík því það taki tíma að fá alla kjörkassa í hús. „Hann er ekki kominn strax, kassinn frá Djúpavogi,“ bendir Páll á.
Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um hvorri aðferðinni verði beitt að sögn Ríkarðs Mássonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. „En ég er helst á því að við handteljum eins og venjulega; tökum bara hverja spurningu fyrir sig.“ Hann hefur sömu sögu að segja og Páll varðandi það hversu langan tíma það taki að fá öll gögn í hús. „Kjörgögnin berast ekki frá Norðurlandi og Vestfjörðum fyrr en svo seint,“ segir hann og bætir við að megnið af gögnunum verði eflaust ekki komið í hús fyrr en á fjórða tímanum aðfaranótt sunnudags.
Flestir kjörstaðir á landinu opna á milli 9 og 13 laugardaginn 20. október og þeim verður öllum lokað kl. 22. Þá hefst talning atkvæða fyrir opnum tjöldum. Kjördæmin eru sex. Í Reykjavíkurkjördæmi norður verður talið í Ráðhúsi Reykjavíkur, í Reykjavíkurkjördæmi suður verður talið í Hagaskóla, í Suðvesturkjördæmi verður talið í íþróttahúsinu í Kaplakrika, í Suðurkjördæmi verður talið í Fjölbrautarskóla Suðurlands, í Norðausturkjördæmi verður talið í Brekkuskóla á Akureyri og Norðvesturkjördæmi fer talning fram í íþróttahúsinu í Borgarnesi.