Hætt verði við að hljóðrita fundina

Þingmeirihluti var fyrir því á síðasta ári að hljóðrita ríkisstjórnarfundi, …
Þingmeirihluti var fyrir því á síðasta ári að hljóðrita ríkisstjórnarfundi, en nú er verið að undirbúa breytingu á lögunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsætisráðuneytið hefur látið vinna drög að frumvarpi sem gerir ráð fyrir að ákvæði laga um að ríkisstjórnarfundir skuli hljóðritaðir taki ekki gildi, en að í staðinn verði sett ákvæði um að fundargerðir ríkisstjórnarfunda verði ítarlegri. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis mun hins vegar leggja frumvarpið fram.

Ný lög um stjórnarráð Íslands voru samþykkt á síðasta ári, en í þeim er að finna ákvæði um að allir fundir ríkisstjórnarinnar skuli hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns. Þessar hljóðritanir skuli síðan gerðar opinberar að 30 árum liðnum. Þetta ákvæði átti að koma til framkvæmda 1. nóvember nk.

Róbert R. Spanó, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, og Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hafa unnið greinargerðir fyrir forsætisráðuneytið þar sem færa rök fyrir því að hugsanlegt sé að hljóðritun ríkisstjórnarfunda nái ekki þeim markmiðum sem lögunum var ætlað að ná. Forsætisráðuneytið telur þess vegna nauðsynlegt að breyta lögunum.

Ráðuneytið hefur kynnt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis drög að frumvarpi sem felur í sér að ákvæði laganna um hljóðritun ríkisstjórnarfunda verði fellt á brott, en að í staðinn komi ákvæði um að ítarlegri færslu á ríkisstjórnarfundum og að ráðherrum verði heimilt og skylt að upplýsa um efni þeirra mála sem lagt er fyrir ríkisstjórn, nema að annað sé ákveðið.

Á síðasta fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var samþykkt að nefndin myndi leggja frumvarpið fram. Það mun væntanlega koma fram á allra næstu dögum.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt mikla áherslu á að ríkisstjórnarfundir verði hljóðritaðir og nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna hafa sömuleiðis verið áhugasamir um þetta mál. Í stjórnarflokkunum eru hins vegar einnig margir sem hafa efasemdir um að rétt sé að hljóðrita ríkisstjórnarfundi. Talið er víst að frumvarp um að breyta lögunum komi fram á næstu dögum. Margt bendir til að ríkisstjórnin muni þurfa á stuðningi stjórnarandstöðunnar að halda til að ná frumvarpinu í gegn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert