Skurðdeild Landspítala Hringbraut hefur fengið að gjöf fullkomnustu gerð af höfuðljósum ásamt ljósgjafa sem nýtast munu við ýmiss konar skurðaðgerðir, m.a. í kviðarholi en einnig við hjarta- og lungnaskurðaðgerðir. Eldri ljósabúnaður er kominn til ára sinna og þessi gjöf kemur því í góðar þarfir. Hún var afhent 12. október og er í minningu Katrínar Gísladóttur (f. 1903, d. 1997), skurðhjúkrunarkonu og síðar yfirhjúkrunarkonu á skurðdeild Landspítala. Gefandi er Erla Þorsteinsdóttir en hún er bróðurdóttir Katrínar, segir í tilkynningu.
Katrín var einn af helstu frumkvöðlum í skurðhjúkrun hér á landi. Hún var ein af fyrstu nemum sem hófu nám í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands sem stofnaður var í sambandi við Landspítalann þegar hann tók til starfa árið 1930. Katrín hafði áður starfað erlendis í nokkur ár og hugðist læra hjúkrun í Danmörku. Vegna Alþingishátíðarinnar árið 1930 kom hún heim til Íslands og ákvað þá að innritast í hinn nýstofnaða Hjúkrunarkvennaskóla um áramótin 1930-1931. Eftir útskrift 1934 hélt hún í framhaldsnám til Finnlands en sneri aftur heim ári síðar og starfaði á Vífilsstaðaspítala í tæpan áratug við hjúkrun berklasjúklinga. Hún var síðan ráðin deildarhjúkrunarkona á skurðstofu Landspítala frá 1944 og var yfirhjúkrunarkona frá 1966 til starfsloka 1982.
Á skurðstofunni starfaði Katrín lengi með Snorra Hallgrímssyni prófessor og áttu þau mjög farsælt samstarf. Margir hjúkrunarfræðingar og skurðlæknar á Landspítala muna enn vel eftir Katrínu enda gegndi hún lykilhlutverki á skurðdeild spítalans um áratuga skeið og var brautryðjandi á ýmsum sviðum.