Höfuðljós til skurðaðgerða að gjöf

Aðstandendur Katrínar Gísladóttur, Hrefna Clausen, Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir og Erla …
Aðstandendur Katrínar Gísladóttur, Hrefna Clausen, Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir og Erla Þorsteinsdóttir ásamt Tómasi Guðbjartssyni yfirlækni við skurðdeild LSH og Birni Zoëga forstjóra.

Skurðdeild Landspítala Hringbraut hefur fengið að gjöf fullkomnustu gerð af höfuðljósum ásamt ljósgjafa sem nýtast munu við ýmiss konar skurðaðgerðir, m.a. í kviðarholi en einnig við hjarta- og lungnaskurðaðgerðir. Eldri ljósabúnaður er kominn til ára sinna og þessi gjöf kemur því í góðar þarfir. Hún var afhent 12. október og er í minningu Katrínar Gísladóttur (f. 1903, d. 1997), skurðhjúkrunarkonu og síðar yfirhjúkrunarkonu á skurðdeild Landspítala. Gefandi er Erla Þorsteinsdóttir en hún er bróðurdóttir Katrínar, segir í tilkynningu.

Katrín var einn af helstu frumkvöðlum í skurðhjúkrun hér á landi. Hún var ein af fyrstu nemum sem hófu nám í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands sem stofnaður var í sambandi við Landspítalann þegar hann tók til starfa árið 1930. Katrín hafði áður starfað erlendis í nokkur ár og hugðist læra hjúkrun í Danmörku. Vegna Alþingishátíðarinnar árið 1930 kom hún heim til Íslands og ákvað þá að innritast í hinn nýstofnaða Hjúkrunarkvennaskóla um áramótin 1930-1931. Eftir útskrift 1934 hélt hún í framhaldsnám til Finnlands en sneri aftur heim ári síðar og starfaði á Vífilsstaðaspítala í tæpan áratug við hjúkrun berklasjúklinga. Hún var síðan ráðin deildarhjúkrunarkona á skurðstofu Landspítala frá 1944 og var yfirhjúkrunarkona frá 1966 til starfsloka 1982.

Á skurðstofunni starfaði Katrín lengi með Snorra Hallgrímssyni prófessor og áttu þau mjög farsælt samstarf. Margir hjúkrunarfræðingar og skurðlæknar á Landspítala muna enn vel eftir Katrínu enda gegndi hún lykilhlutverki á skurðdeild spítalans um áratuga skeið og var brautryðjandi á ýmsum sviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert