Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis leggur í nefndaráliti til að þingsályktunartillaga um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. verði samþykkt og niðurstaða hennar liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2013.
Málið var endurflutt frá 140. löggjafarþingi en þá lagði meirihluti nefndarinnar einnig til að þingsályktunartillagan yrði samþykkt.
Vísað var í fyrra nefndarálit þar sem segir að þó nokkuð hafi verið skrifað um einkavæðinguna vanti enn heildstætt yfirlit yfir málið þar sem ekki hafi verið varpað ljósi á alla þætti þess. Mikilvægt sé að fá niðurstöðu í ferlið þannig að unnt sé að draga lærdóm af því og búa til aðferðafræði sem sé opin og gagnsæ og nýtist við slík verkefni sem einkavæðing ríkisfyrirtækja er.
„Meirihlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur brýnt að rannsóknin verði hafin sem allra fyrst og að niðurstöður hennar liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2013 í stað 15. mars 2013 eins og lagt er til í tillögunni.“