Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá kæru Ásatrúarfélagsins á hendur íslenska ríkinu sem það sakaði um brot gegn trúfrelsi manna og mismunun, en dómstóllinn segir málið ekki uppfylla skilyrði efnismeðferðar.
Árið 2007 sýknaði Hæstiréttur ríkið af kröfum félagsins sem krafðist þess að fá sambærilegar greiðslur úr ríkissjóði og þjóðkirkjan. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar sagði m.a. að verkefni Ásatrúarfélagsins yrðu ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar. Af þeirri ástæðu væri ekki um mismunun að ræða.
Árið 2008 kærði Ásatrúarfélagið málið til mannréttindadómstólsins.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Ásatrúarfélagsins, segir að félagið hafi gert athugasemdir við greiðslur sem þjóðkirkjan fékk úr Jöfnunarsjóði sókna.
Hann tekur fram að þó að dómstóllinn hafi fjallað efnislega um málið þó að hann hafi vísað því frá. Mannréttindadómstóllinn leggi áherslu á hin sérstöku hlutverk þjóðkirkjunnar fram yfir önnur trúfélög. „Ég tel að það sé þungamiðjan í niðurstöðunni,“ segir Ragnar.
„Áherslan virðist liggja á því að þjóðkirkjunni sé úthlutað hlutverkum fram yfir það sem öðrum trúfélögum er úthlutað, eða er skylt að inna af hendi, og líka gagnvart fólki sem er utan þjóðkirkjunnar. [...] Þess vegna sé réttlætanlegt og málefnanlegt að þjóðkirkjan fái frekari fjármuni úr ríkissjóði heldur en önnur trúfélög,“ segir hann ennfremur.
Dómurinn er endanlegur.